Síðasta verk John F. Kennedy, þáverandi forseta Bandaríkjanna, áður en hann skrifaði undir forsetaákvörðun, sem fól í sér viðskiptabann á Kúbu var að tryggja sér sjálfum nægilegt magn af kúbönskum Petit Uppmann vindlum.

Þann sjötta febrúar 1962 skipaði Kennedy fjölmiðlafulltrúanum Pierre Salinger, sem einnig var mikill vindlareykingamaður, að útvega 1.000 Petit Uppmann vindla svo að forsetinn gæti haft þá í sinni eigu áður en viðskipti með þá yrðu ólögleg.

Salinger greindi fyrst frá þessu í viðtali við tímaritið Cigar Aficionado árið 1992, en sagan hefur nú verið rifjuð upp vegna þess að fimmtíu ár eru liðin frá því að viðskiptabannið var sett á.

Daginn eftir, þ.e. að morgni 7. febrúar, kom Salinger inn á skrifstofu forsetans sem spurði hvernig hefði gengið. Þegar Kennedy heyrði að vindlarnir væru 1.200 talsins en ekki 1.000 brosti hann og dró blað upp úr skrifborðsskúffu og ritaði nafn sitt á það. Þetta blað var umrædd forsetaákvörðun og hefur viðskiptabannið verið í gangi síðan þá.