Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins segir að ef Reykjavíkurborg hefði ekki sofið á verðinum í lóðaúthlutunum væru forsendur fyrir lægri stýrivöxtum til staðar.

Segir hún eina helstu ástæðu að fasteignaverð á höfuðborgarsvæðin hafi hækkað um 20% á síðasta ári vera að Reykjavíkurborg hafi einungis byggt 300 íbúðir árlega þegar fyrir hafi legið lengi að árleg þörf væru 800 íbúðir. Ef borgin hefði úthlutað því magni lóða sem vitað var að þörf væri á, hefði fasteignaverð líklega fylgt launaþróun, eða hækkað í kringum 8% á ári.

„Ástæður þessarar stöðu blasa við, of lítið hefur verið byggt og of fáum lóðum úthlutað. Einkum er það stærsta sveitarfélagið, Reykjavík, sem hefur sofið á verðinum. Þótt þétting byggðar geti verið góðra gjalda verð þá virðist á sama tíma hafa gleymst að byggja þarf fasteignir fyrir borgarbúa,“ segir Ásdís í pistlinum sem birtist í Viðskiptablaðinu .

„Aðgerðarleysi borgaryfirvalda hefur afleiðingar umfram þær að gera fólki erfiðara fyrir að koma þaki yfir höfuðið [...] Ef ekki væri fyrir þessar hækkanir væri hér 1,8% verðhjöðnun. Hefði borgin brugðist við fyrr er ólíklegt að húsnæðisverð hefði hækkað um tugi prósenta heldur fremur fylgt launaþróun og hækkað um 8% á ári. Í slíku árferði má ætla að stýrivextir Seðlabankans væru ekki 4,75% heldur mörgum prósentum lægri.“