Ali al-Naimi, olíumálaráðherra Sádi-Arabíu, segir Samtök olíuútflutningsríkja (OPEC) ekkert geta gert til þess að sporna við háu heimsmarkaðsverði á hráolíu þar sem það stýrist af öðrum skorti á framboði. Naimi, sem sat iðnaðarráðstefnu í Varsjá í Póllandi í gær, sagði við blaðamenn að ástæðu hins háa verðs væri að finna í ótryggu ástandi á vettvangi alþjóðamála auk flöskuhálsa í olíuhreinsunarstöðvum. Ummæli Naimi bergmála nýlegar yfirlýsingar Mohamed Al Hamli, forseta OPEC, um að aðildarríki samtakanna sjái enga ástæðu til þess að auka framleiðslu. Áður hafði Alþjóðaorkumálastofnunin hvatt samtökin til þess að gera einmitt það til þess að þrýsta niður verðinu á heimsmarkaði.

Leitt hafði verið líkum að því að stjórnvöld í Sádi-Arabíu kynnu að auka framleiðslu á hráolíu en verðið á fatinu hefur hækkað um sex Bandaríkjadali síðasta mánuð og er nú í 73 dölum. Yfirlýsingar Naimi benda til þess að slík ákvörðun sé ólíkleg. Naimi benti á að Sádar, sem dæla um þessar mundir 8,6 milljónum fata á dag, gætu vissulega framleitt meira, en staðreynd málsins væri að eftirspurn eftir umframmagni af hráolíu væri ekki til staðar. Hann benti á að birgðastaðan hefði ekki verið meiri í fimm ár og að jafnvægi væri milli framboðs og eftirspurnar á heimsmarkaði.

Aðildarríki OPEC hafa verið gagnrýnd fyrir að horfa of mikið á birgðastöðuna í Bandaríkjunum þegar kemur að ákvörðunartöku um framleiðslu. Bent hefur verið að birgðastaðan í ríkjum eins og Kína sé ekki góð og því sé ekki eingöngu hægt að horfa til slíkra þátta.