David Calhoun, nýr forstjóri Boeing, segir stöðu Boeing mun verri en hann taldi í viðtali við New York Times . Þá fer hann hörðum orðum um Dennis Muilenburg, forvera sinn í starfi, sem var rekinn í desember, og kennir honum um ófarir Boeing. Mánuði fyrr hafði Calhoun komið Muilenburg til varnar í viðtali við CNBC og sagði hann hafa gert allt rétt.

Calhoun tók sæti í stjórn Boeing árið 2018 og var gerður að stjórnarformanni í október á síðasta ári. Hann segir stjórnina hafa þurft að styðja Muilenburg á meðan hann væri forstjóri félagsins.

Stjórnin hafi treyst Muilenburg, sem verkfræðingi, sem starfað hafi hjá Boeing alla ævi, til að leggja mat á þá áhættu sem fælist í að auka framleiðslu félagsins verulega. Calhoun segist ekki geta sagt til um hvort stjórn félagsins hafi verið værukær.

Calhoun segir forvera sinn í starfi hafa þrýst um of á að auka framleiðslu áður en aðfangakeðja félagsins var tilbúin. Það átt þátt í að ýta hlutabréfaverði Boeing í hæstu hæðir en það hafi komið niður á gæðum framleiðslunnar. Hann viti ekki hvort að græðgi eða keppnisskapið hafi stýrt hegðun Muilenburg. En ef einhver væri tilbúinn að „elta gull að enda regnbogans“ væri það hann.

737 MAX flugvélar Boeing hafa verið kyrrsettar frá því í mars á síðasta ári og óvíst er hvenær þeim verður hleypt í loftið á ný. Tvö mannskæð flugslys síðasta vetur urðu til þess að 346 manns létust.

Calhoun gagnrýnir Muilenburg einnig fyrir stöðugar yfirlýsingar um hvenær 737 vélunum verði hleypt aftur í loftið af bandarísku flugmálayfirvöldunum FAA. Engar þeirra hafi staðist og þær hafi pirrað stjórnendur FAA sem hafi fundist að Boeing væri að reyna að stilla þeim upp við vegg.