Forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, Donald Tusk, varar leiðtoga Evrópusambandsins við að útópískar hugmyndir þeirra um sífelld dýpra og þéttofnara sambandsríki álfunnar sé þvert á móti að sundra Evrópu. Jafnframt segir hann að það væri mikil mistök að ætla að nýta mögulega útgöngu Breta úr sambandinu til að þrýsta á enn frekari samþættingu.

Úr tengslum við raunveruleikann

Á 40 ára afmælisfundi kosningabandalags kristilegra demókrata og íhaldsflokka í Evrópu (EPP) sakaði hann elítu sambandsins um að vera úr tengslum við raunveruleikann og hafa ýtt undir bakslag efasemdarafla sem nú sé að rísa í mörgum löndum þess.

„Það erum við hér í dag sem berum ábyrgðina“ sagði hann „Heltekin af hugmyndinni um hraða og algera samþættingu, tókum við ekki eftir því að venjulegt fólk, borgarar Evrópu, deila ekki með okkur evrópu-kappseminni“

Meirihluti Breta hlynntur útgöngu

Þessi viðvörun kemur á sama tíma og nýjasta skoðanakönnun í Bretlandi frá Guardian ICM að þeir sem vilji yfirgefa sambandið séu með nauman meirihluta eða 45% á móti 42% þeirra sem vilja vera áfram í sambandinu.

Donald Tusk sem hefur áhyggjur af þjóðlegu bakslagi í heimalandi sínu Póllandi skammaði ráðamenn í ESB fyrir að þrýsta á útópíuhugmyndir um Evrópu án þjóðríkja, sem gangi þvert á sögu álfunnar og hafi skapað sterka menningarlega andstöðu sem ekki sé hægt að afgreiða sem öfgahægrisinnaðann popúlisma.

Hvatti hann kanslara Þýskalands, Angelu Merkel, forseta framkvæmdastjórnar ESB, Jean-Claude Juncker, og aðra leiðtoga að breyta um aðferðarfræði og hætta að vinna að sífellt miðstýrðari Evrópu.