Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir hefur haft sérstakan áhuga á íslenskri tungu frá því að hún man eftir sér. Hún hefur alltaf lesið mikið og hélt mikið til á bókasöfnum á sínum yngri árum. Hún er með BA gráðu í bókmenntafræði frá HÍ, auk meistaragráðu í menningarfræði frá Edinborgarháskóla, og MBA gráðu frá HR.

Ný manneskja á sjö ára fresti
Eftir útskrift vann hún sem markaðsstjóri hjá Borgarleikhúsinu og gegndi svo sömu stöðu hjá Deloitte. Eftir það fór hún í áðurnefnt MBA nám og vann hjá Straumi fjárfestingabanka í þrjú ár í „blússandi góðæri“, en hætti þar í maí 2008. Þá tók hún við sem framkvæmdastjóri listahátíðar í Reykjavík, og vann þar í tvö ár. Samhliða þessu öllu saman eignaðist Jóhanna svo tvö börn. Jóhanna hóf síðan störf hjá HR í nóvember 2011, sem hún segir vera mánuð breytinga hjá sér. „Þegar þetta starf bauðst og ég sá að það var kominn nóvember aftur þá fannst mér tilvalið að breyta til. Ég las það einhvers staðar að það tæki allar frumur líkamans sjö ár að endurnýja sig, svo mér finnst ágætt að hugsa sjálfa mig í því samhengi.“ Því megi með sanni segja að sú Jóhanna sem nú hefur störf hjá Almannarómi sé ný manneskja.

Grunnurinn að flóknari máltæknitólum
Almannarómur er sjálfseignastofnun sem var stofnuð 2014 með það markmið að smíða máltæknilausnir fyrir íslensku. „Þetta er stofnað af um 20 aðilum héðan og þaðan; háskólastofnunum, fyrirtækjum og félagasamtökum.“ Það var svo í ágúst síðastliðnum sem mennta- og menningarmálaráðuneytið samdi um rekstur miðstöðvar máltækniáætlunar við Almannaróm.

Á því fimm ára tímabili sem áætlunin spannar þurfa fjórar svokallaðar kjarnalausnir að verða til: Talgreinir, talgervill, þýðingarvél og málrýnir. „Þessar kjarnalausnir á síðan að vera hægt að hagnýta í hugbúnaðarlausnum fyrir almenning, stofnanir og fyrirtæki. Þetta er grunnurinn að því að byggja flóknari máltæknitól,“ segir Jóhanna.

Samhæfir og stýrir
Máltækniáætlunin verður unnin þannig að Jóhanna stýrir því og samhæfir, en fær utanaðkomandi aðila til að vinna hina eiginlegu vinnu. Rannsakendur munu geta sótt um fjármagn til að smíða lausnir á sviði máltækni, og fagráð skipað innlendum og erlendum sérfræðingum metur umsóknirnar og stýrir því í hvaða verkefni verður ráðist. Jóhanna hefur svo yfirumsjón með verkefninu í heild.

„Fyrirtæki munu geta sótt fé í sjóði til að standa að smíði tóla og þjónustu í máltækni. Þannig viljum við stuðla að því að ný þekking verði til, ásamt því að hlúa að því starfi sem þegar hefur verið unnið. Hlutverk mitt er að sjá til þess að verkefni máltækniáætlunar fyrir íslensku næstu fimm árin verði framkvæmd af sérfræðingum, stofnunum og fyrirtækjum, sem fengin verða til að útfæra þau. Ég mun sjá um samhæfingu þeirra verkefna,“ segir Jóhanna.

Nýsköpunin lykilatriði
Meirihluti fjármagnsins verður settur í rannsóknir og nýsköpun, að sögn Jóhönnu. „Nýsköpunin er algjört lykilatriði í þessu máli. Mitt hlutverk er bara að koma þessum peningum í vinnu. Ég er í rauninni að sjá til þess, ásamt því að samhæfa samstarf á milli háskóla, rannsóknastofnana og atvinnulífs. Upp úr þessu komum við máltækni í notkun fyrir íslensku, við fáum atvinnulífið til að skapa máltækniiðnað í landinu.“

Jóhanna segir mikla þekkingu til á sviðinu hér á landi. „Nú þegar er nám í máltækni á meistarastigi sem er rekið í sameiningu af HÍ og HR. Þar er því strax verið að búa til mannauð til að fara í þessar rannsóknir.“ Auk þess að nýtast íslenskunni sérstaklega, segir hún að sumar lausnir sem þróaðar verði í tengslum við máltækniáætlunina muni eflaust nýtast á almennari hátt á fleiri tungumálum. „Það má nokkurn veginn gefa sér að einhver þeirra lausna sem þarna verða þróaðar muni síðan hafa víðari skírskotun í önnur og stærri málsvæði. Það eru 6.500 tungumál til í heiminum, en tungumálin sem við tölum við tækin okkar á geta verið svolítið takmörkuð.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .