Vitað er um 142 einstaklinga sem hafa verið í forsvari fyrir fimm eða fleiri félög sem farið hafa í gjaldþrot. Þetta segja fulltrúar Alþýðusambands Íslands í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins. Fjallað var um málið í kvöldfréttum í gær þar sem sagði frá því að sami maðurinn hefði á síðustu árum stofnað 17 fyrirtæki og skuldaði tugi milljóna í opinber gjöld.

Alþýðusambandið segist hafa áhyggjur af auknu kennitöluflakki eftir hrun. Nú eru skráð á Íslandi 31.000 fyrirtæki með takmarkaða ábyrgð. Greint hefur verið frá áformum yfirvalda um að bregðast við þessum vanda, í það minnsta að hluta, með því að leggja harðar að fyrirtækjum um að skila ársreikningum. Það er í samræmi við það sem tíðkast á öðrum Norðurlöndum og stendur jafnvel til að leggja fjársektir á stjórnarmenn fyrirtækja sem ekki skila reikningum á settum tíma eða loka félögum sem ekki sinna skuldbindingum.