Að setja eitt félag í þrot og halda áfram rekstri með því næsta er vel þekkt fyrirbæri hérlendis. Níels S. Olgeirsson, formaður Matvíss, telur að breyta þurfi lögum um einkahlutafélög.

„Menn skipta um kennitölur nánast um leið og við sendum bréf til fyrirtækja varðandi vangreidd laun til okkar félagsmanna. Þeir einfaldlega skipta um kennitölu og halda áfram rekstri,“ segir Níels S. Olgeirsson, formaður MATVÍS, Matvæla- og veitingafélags Íslands.

Hann segir að lítið sé að gert, til dæmis er þeim gjörninum sem gerðir eru fyrir gjaldþrot og hafa áhrif á verðmæti búsins sjaldnast rift. „Það er búið að setja lög um að launamenn tapi ekki við aðilaskipti á fyrirtækjum en það er eins og það nái ekki yfir þau atvik þegar rekstur færist yfir á nýja kennitölu en sú gamla lifir.“ Níels telur að breyta þurfi lögum til að koma í veg fyrir að skuldir og skuldbindingar séu skildar eftir á gamalli kennitölu á sama tíma og öll verðmæti og rekstur færast undir nýtt félag.

Skattgreiðendur borga

„Við stungum upp á því að skoða hvernig þetta hefur þróast hjá öðrum þjóðum. Það þarf einhver að bera ábyrgð en þannig er það ekki hér, ég held að það sé hvergi annarsstaðar svo auðvelt að skipta um kennitölur og halda áfram rekstri,“ segir Níels og bendir á að þeir sem greiði á endanum kostnaðinn séu skattborgarar. „Fólk skilur eftir skuldirnar og ógreiddu skattana. Þá er það á ábyrgð ríkisins að borga út laun og greiðslur til lífeyrissjóða. Þetta finnst mér vera stóra myndin. Siðleysið er algjört og löggjafanum virðist vera alveg sama.“

-Nánar í Viðskiptablaðinu