Hugmyndin um almenningshlutafélög varð fljótlega vinsæl í einkavæðingarferli tíunda áratugarins – að fyrirtæki færðust úr eigu ríkisins í dreifða eign almennings. Fyrsta slíka salan var á hlutum ríkisins og Reykjavíkurborgar í Jarðborunum sem þóttu vel heppnaðar og sýna að áhugi væri á vel reknum ríkisfyrirtækjum. Deilt var um hvort jafn vel hefði tekist til þegar ríkissjóður seldi 49% hlut sinn í Fjárfestingabanka atvinnulífsins (FBA) árið 1998. FBA varð til með sameiningu fjögurra sjóða sem ríkið hafði rekið til að veita fjármagn til ýmissa atvinnugreina með misjöfnum árangri. Stefnt var að því að hluturinn yrði seldur í dreifðri eignaraðild og þak var á hvað hver einstaklingur gæti keypt í hinum nýja banka.

Fyrir útboðið fóru Búnaðarbankinn og Kaupþing að keppast að því að fá einstaklinga til að skrá sig fyrir hámarksfjárhæð útboðsins gegn loforði um að fjármálafyrirtækin keyptu hlutina af þeim strax eftir útboð. Hlutirnir enduðu að lokum í eigu Orca-hópsins svokallaða sem eignaðist 22% hlut í bankanum.

Um það leyti var einnig ákveðið að selja 13% hluti í Landsbankanum og Búnaðarbankanum í gegnum hlutafjáraukningu. Sama kennitölusöfnin átti sér stað þar og í tilfelli FBA. Yfir 90 þúsund manns skráðu sig fyrir hlutum í Búnaðarbankanum í desember 1998. Hafði þriðjungur þeirra þegar selt hlutina áfram. Athæfið var kallað kennitölusöfnun. Mörgum stjórnmálamönnum þótti ferlið ósiðlegt þótt það stæðist lög.

Ríkisstjórnin breytti því um stefnu þegar hin 51% í bankanum voru seld í nóvember 1999. Ákveðið að óska eftir tilboðum og var sett þak á hvað hver mætti eiga mikið í bankanum. Meðlimir Orca-hópsins komu þá fram hver fyrir sig en tókst að auka við hlut sinn þannig að þeir áttu nærri helmingshlut í FBA um aldamótin. FBA sameinaðist síðan Íslandsbanka í júní árið 2000. Viðskiptin urðu upphaf að áralangri valdabaráttu innan Íslandsbanka. Salan á FBA var langsamlega stærsta einkavæðingin til þessa og nam söluandvirðið ríflega 14 milljörðum króna.

Nánar er fjallað um einkavæðingar á 9. og 10. áratugnum í 25 ára afmælistímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift á sérstöku afmælistilboði eða pantað tímaritið .