Margrét Einarsdóttir tók á dögunum við stjórnarformennsku í Fjármálaeftirlitinu (FME). Hún gegnir stöðunni tímabundið eða þar til búið verður að skipa í stöðuna á nýjan leik. Hún tók við af Aðalsteini Leifssyni, sem er að taka við starfi á vegum EFTA og verður forstöðumaður fyrir skrifstofu framkvæmdastjóra samtakanna í aðalstöðvum þeirra í Genf.

Margrét, sem útskrifaðist með mastersgráðu (LL.M) í Evrópurétti frá lagadeild Háskólans í Cambridge á Englandi, hefur komið víða við á ferli sínum sem lögfræðingur. Hún hefur meðal annars starfað á lögmannstofunum Mörkinni og Lex og verið aðstoðarmaður dómara í Hæstarétti.

Síðustu þrjú ár hefur hún verið lektor við Háskólann í Reykjavík og segir kennsluna vera draumastarf. Margrét, sem hefur setið í stjórn FME í ríflega ár, segist eiga von á því að fljótlega verði skipað í stöðu stjórnarformanns, væntanlega fyrir áramót. „Ég mun því aðeins gegna stjórnarformennsku í skamman tíma,“ segir Margrét, sem segir stjórnarsetuna mjög áhugaverða enda sé verið að takast á við mörg krefjandi verkefni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .