Árlegur fjöldi bóka útgefnum á pappír hér á landi hefur staðið í stað frá síðustu aldamótum, þó þær hafi verið flestar árið 2008, eða 1.800 talsins. Á árunum 1999 til 2015 komu að jafnaði út 1.597 bækur árlega, en síðasta árið voru þær 1.488 í heildina, sem eru 72 færri en árin 2013 og 2014 að því er Hagstofan greinir frá.

Á sama tíma hefur einnig dregið úr útgáfu ýmis konar smárita og skýrslna á pappír á vegum stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, en þær hafa í auknum mæli færst á netið, líkt og margvísleg afþreying á stafrænu formi sem komin er í samkeppni við bókina.

Þó bókaútgáfan hafi að mestu staðið í stað á öldinni, hefur fjöldi bóka gefnar út miðað við fólksfjölda farið lækkandi. Voru sex bækur á hverja þúsund íbúa gefnar út á árunum 1999 og 2000 en árið 2012 voru þær komnar niður í fimm og loks niður í 4,5 árið 2015.

Útgefnum námsbókum fækkar

Langflestar, eða sjö af hverjum tíu bókum sem gefnar eru út ár hvert, eru íslensk höfundarverk, rituð á íslensku og hefur það hlutfall haldist stöðug.

Af þýddum bókum eru langsamlega flestar á ensku, eða ríflega 6 af hverjum tíu sem komu út á síðasta ári. Næst flestar voru þýddar úr sænsku, eða tíunda hver þýdd bók, en samtals voru tvær af hverjum tíu þýðingar úr öðrum Norðurlandamálum. Það hlutfall hefur einnig haldist stöðugt.

Á árinu 2015 voru rit almenns efnis ríflega þrjár af hverjum fjórum, eða 76 af hverjum 100 bókum, en 21 af hverjum 100 voru fyrir börn og unglinga mean kennslu- og námsbækur voru einungis 3 á hverja 100. Hefur hlutur bóka fyrir börn og unglinga aukist nær samfellt frá árinu 1999, á kostnað rita almenns efnis og kennslubóka, en þeim síðarnefndu hefur fækkað um helming frá aldamótum.