Síðan 2012 hefur kennurum án kennsluréttinda fjölgað ár frá ári og voru 8,6% af 5.140 starfsmönnum við kennslu haustið 2017. Þetta kmeur fram á vef Hagstofunnar . Þá voru 443 starfsmenn við kennslu án kennsluréttinda og hafði fjölgað úr 272 frá hausti 2016.

Lægst var hlutfall kennara án kennsluréttinda á landinu í Reykjavík, 5,8% og á Norðurlandi eystra, 6,2%. Hæst var hlutfall kennara án réttinda á Vestfjörðum, 27,0%.

Meðalaldur starfsfólks við kennslu í grunnskólum hefur farið hækkandi frá árinu 2000. Haustið 2000 var hann 42,2 ár en haustið 2017 46,7 ár. Á sama tímabili hefur meðalaldur kennara með réttindi hækkað um rúm fjögur ár, í 47,7 ár. Meðalaldur starfsfólks við kennslu án réttinda var töluvert lægri en réttindakennara og hefur svo verið á öllu tímabilinu og var 35,9 ár haustið 2017.

Frá skólaárinu 1998–1999 hefur starfsfólki við kennslu fjölgað úr rúmlega fjögur þúsund í rúmlega fimm þúsund haustið 2017. Karlar við kennslu voru rúmlega 900 haustið 2017 og hafði fækkað úr tæplega 1.100 haustið 1998. Á sama tíma fjölgaði konum úr tæplega þremur þúsundum í rúmlega 4.200 haustið 2017..