Danski fasteignarisinn Keops, sem Baugur á stóran hlut í, hefur á ný hafið sölu íbúða í Tyrklandi. Í frétt danska viðskiptaritsins Börsens kemur fram að Keops hætti um skeið að selja íbúðir vegna erfiðleika við að fá rétt leyfi en nú hefur Keops Development aftur opnað fyrir sölu.

Keops býður nú 144 lúxusíbúðir á Alanya svæðinu og vinnur um leið að stóru byggingaverkefni í Istanbul. Þar er bæði um að ræða heilsárshús og sumarhús sem nú standa dönskum kaupendum til boða.

Keops hyggur á gríðarmikla starfsemi í Tyrklandi á næstu 5 til 10 árum.

Tyrkneska þingið hefur samþykkt ný skaðabótalög sem ættu að auðvelda kaup Dana á svæðinu. Með tilkomu laganna skýrist réttarstaða erlendra ríkisborgara við fasteignakaup í landinu.

"Við höfðum engar efasemdir um að lögin yrðu samþykkt í Tyrklandi og ég hef trú á því að margir áhugasamir kaupendur hafi beðið eftir samþykki þeirra. Nú hafa lögin tekið gildi og Tyrkir hafa þar með staðfest að útlendingar hafi fullan rétt til þess að kaupa íbúðir í Tyrklandi," segir stjórnandi Keops í Alanya Thomas Erringsø í tilkynningu félagsins.

Keops gerir ráð fyrir að selja jafn margar íbúðir í Tyrklandi og í Danmörku á þessu ári.