Danska fjárfestingarfélagið Keops, sem Baugur Group á 30% hlut í, tilkynnti í dag að afkomuspá fyrir þetta og næsta ár hefði verið hækkuð. Reiknar félagið nú með því að hagnaður á þessu ári fyrir skatta verði 300 milljónir danskra króna, sem er hækkun um 40-60 milljónir, og á næsta ári verði hagnaður fyrir skatt 380-420 milljónir danskra króna.

Að sögn fréttavefjar blaðsins Børsen segir félagið að ástæða afkomubatans sé að fjárfestingarstefnan að undanförnu hafi tekist vel.

Gengi hlutabréfa félagsins hefur rúmlega fjórfaldast á síðustu 12 mánuðum. Baugur keypti 30% hlut í félaginu í júlí.