Danska fasteignafélagið Keops á í viðræðum við sænska keppinautinn Kungsleden AB um að kaupa um 150 fasteignir að virði fimm milljarðar danskra króna, eða tæplega 63 milljarðar íslenskra króna.

Keops staðfesti viðræðurnar í tilkynningu í dag en lagði áherslu á að ekki væri víst að samningar næðust við sænska fyrirtækið.

Ef kaupin verða að veruleika munu þau verða þau stærstu í sögu Keops. Fyrirtækið mun fjármagna kaupin með útgáfu skuldabréfa.

Baugur á 29% hlut í Keops en fyrirtækið hefur einnig fjárfest í dönsku fasteignafélögunum Atlas í gegnum fasteignafélagið Stoðir og fasteignafyrirtækinu Nordicom.