Danska fasteigna- og þróunarfélagið Keops, sem er að stórum hluta í eigu Baugs, hefur selt sænsku skrifstofubyggingaeiningu, Fatburen, fyrir 2,66 milljarða sænskra króna. Keops keypti eininguna í maí 2005 og hagnast því um 660 milljónir sænskra króna eða 6,6 milljarða íslenskra króna að því er kemur fram í danska viðskipadagblaðinu Børsen.

Kaupandi er írska fasteignafélagið Vico Capital sem staðsett er í Dublin.

Að sögn Ole Vagner, forstjóra Keops er salan liður í að skerpa á áherslum hjá Keops og einbeita sér að kjarnastarfsemi félagsins. Samkvæmt frétt Børsen eru fleiri sölur fyrirhugaðar á eignum Keops í Svíþjóð og þar á meðal á Malmestaden sem metin er á 1,5 milljarð sænskra króna.

Baugur Group á tæplega 30% hlut í Keops og Ole Vagner önnur 30%. Félagið var rekið með 873 milljóna danskra króna hagnaði fyrir skatta, reikningsárið 2005?2006. Heildareignir félagsins eru nálægt 230 milljörðum íslenskra króna og hefur stærsti hluti þeirra verið í Svíþjóð.