Keops er nú að ganga frá einum allra umfangsmestu fasteignakaupum í sögu Danmerkur en þar er um að ræða 172 fasteignir með viðskipta- og verslunarhúsnæði í Svíþjóð sem metið er á um það bil 5,4 milljarða danskra króna að kostnaði meðtöldum. Það jafngildir um 70 milljörðum króna.

Frá þessu er greint í frétt á heimasíðu Baugs en þar segir einnig að jafnframt sé verið að undirbúa stærstu útgáfu skráðra fasteignaskuldabréfa með það fyrir augum að fjármagna viðskiptin. Baugur á 29% hlut í Keops.

Í eignasafninu er að finna alls 172 fasteignir víðsvegar um Svíþjóð, einkum þó í suður- og vesturhluta landsins, til dæmis í og umhverfis Gautaborg. Keops kaupir eignasafnið af fyrirtækinu Kungsleden AB sem er skráð á sænskum hlutabréfamarkaði og bæði kaupandi og seljandi undirrituðu í dag skilyrt samkomulag sem byggist á því að eignasafnið verði yfirtekið þann 3. október 2006.

Í eignasafninu eru alls nær 900.000 fermetrar af húsnæði en meirihluti þess er skrifstofur, geymslu- og iðnaðarhúsnæði. Það einkennist af góðri dreifingu, mörgum leigjendum og mörgum leigusamningum. Meðal þekktustu viðskiptavina má nefna Volvo, Ericsson og SKF sem samtals skila um það bil 15% að heildartekjum eignasafnsins.

Fyrirtæki Keops eiga nú þegar fasteignir í Svíþjóð fyrir rúmlega 11 milljarða danskra króna eða ríflega 141 milljarð íslenskra króna. Þessi kaup eru í samræmi við þá stefnu fyrirtækisins að auka umsvif sín í Svíþjóð þegar efnileg og trygg eignasöfn eru boðin til kaups. Fasteignaskuldabréf Keops skila góðum hagnaði auk forkaupsréttar.

Kaupverðið er um það bil 5,4 milljarðar danskra króna með öllum kostnaði og markmiðið er að fjármagna kaupin bæði með bankaláni og útgáfu fasteignaskuldabréfa Keops. Gert er ráð fyrir því að fyrirtækið Keops EjendomsObligationer IX (Sverige III) A/S, sem yfirtekur nýkeypta eignasafnið, gefi út fasteignaskuldabréf fyrir opinberan markað haustið 2006.

Alls er áformað að gefa út bréf fyrir 1,2 milljarða danskra króna eða 15,4 milljarða íslenskra króna en það er stærsta útgáfa á vegum fyrirtækis innan vébanda Keops frá upphafi. Sótt verður um skráningu þessara nýju skuldabréfa í Kauphöllinni í Kaupmannahöfn.