Evrópska verðbréfafyrirtækið Kepler Equities, sem er í eigu Landsbanka Íslands, hefur í ítarlegri könnun rannsóknarfyrirtækisins StarMine verið valið fremsta greiningarfyrirtæki Frakklands í samanburði á meðmælum og hagnaðarspám fyrir félög í CAC 40 vísitölunni og á markaði meðalstórra fyrirtækja.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsbankanum.

Könnunin náði til fjögurra flokka og var Kepler eina fyrirtækið sem komst í hóp fimm efstu í öllum flokkum.

Kepler varð í efsta sæti hjá StarMine í samanburði um nákvæmni í meðmælum greiningardeilda fjármálafyrirtækja um kaup á hlutabréfum, bæði í flokki stærstu fyrirtækja Frakklands sem og í flokki meðalstórra fyrirtækja þar í landi.

Mörg öflug fyrirtæki, svo sem J.P. Morgan, HSBC, Credit Suisse og Citigroup höfnuðu í sætum fyrir neðan.
Þá varð Kepler í öðru sæti yfir nákvæmni þegar bornar voru saman hagnaðarpár greiningaraðila og rauntölur fyrir meðalstór fyrirtæki í Frakklandi og í fimmta sæti hvað varðar stærstu fyrirtæki Frakklands.

?Við erum að sjálfsögðu mjög ánægð með þennan frábæra árangur. Könnun StarMine staðfestir að við erum með nákvæmustu greiningar á verðbréfamarkaði í Frakklandi og það er mjög mikill heiður. Ég þakka þennan stórgóða árangur fyrst og fremst mjög öflugri vinnu greiningaraðila okkar,? segir Francois Mallet, yfirmaður verðbréfadeildar Kepler í París.

Þetta er annað skipti á þremur mánuðum sem Kepler er í fyrsta sæti yfir bestu verðbréfafyrirtækin en í nóvember síðstliðnum varð Kepler efst í könnun hins virta fjármálatímarits, Bloomberg Magazine, yfir bestu verðbréfafyrirtæki í Evrópu. Í öðru sæti í þeirri könnun varð Merrill Lynch en J.P. Morgan og UBS deildu þriðja sætinu.