Kepler Landsbanki er næst besti greiningaraðili fyrir stærstu fyrirtækin á svissneska hlutabréfamarkaðnum árið 2007. Þetta kemur fram í úttekt stærsta fjármáladagblaðs Sviss, Finanz und Wirtschaft; Félags fjármálagreiningaraðila í Sviss og alþjóðlega upplýsingafyrirtækisins Thomson. Þetta kemur fram í frétt frá Landsbankanum.


Greiningardeildum var raðað eftir árangri. Tekin var saman ávöxtun á þeim bréfum sem deildirnar mæltu með og hún borin saman við ávöxtun á markaðnum að teknu tilliti til áhættu.


Bank Sarasin & Cie varð í efsta sæti í samanburðinum en Drendner Kleinwort Wasserstein varð í þriðja sæti á eftir Kepler Landsbanki. Stóru fjárfestingabankarnir UBS or Citigroup urðu í fjórða og fimmta sæti. Þetta er enn ein viðurkenningin sem Kepler Landsbanki fær fyrir nákvæmni í meðmælum um kaup á hlutabréfum. Í vetur fékk fyrirtækið viðurkenningu frá hinu virta fjármálatímariti Bloomberg Magazine fyrir að vera það evrópska hlutabréfafyrirtæki sem veitir bestar ráðleggingar. Þá var greiningardeild félagsins í Frakklandi einnig valin sú besta í ítarlegri könnun rannsóknarfyrirtækisins StarMine.

?Landsbankinn og dótturfélög hans eru með eina umfangsmestu greiningardeild á evrópska hlutabréfamarkaðnum, þar sem um 100 starfsmenn greina tæplega níu hundruð fyrirtæki. Þessi starfsemi er mikilvæg undirstaða fyrir árangur Landsbankans þar sem við teljum að haldgóð þekking á mörkuðum sé forsenda áframhaldandi velgengni og gefi okkur forskot í vaxandi samkeppni í að veita viðskiptavinum trausta fjármálaþjónustu og ráðgjöf. Þessar viðurkenningar sem við höfum hlotið að undanförnu eru mikilvæg staðfesting á sterkri stöðu Landsbankans á þessum alþjóðlegum mörkuðum,? segir Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans í tilkynningunni.