Evrópska verðbréfafyrirtækið Kepler Equities, sem Landsbanki Íslands keypti árið 2005, mun eitt af þeim fjármálafyrirtækjum sem hafa umsjón með sölu á 32% hlutafjár í tengslum við skráningu og samruna frönsku bankanna Natexis Banque Populaires og Ixis Corporate & Investment Bank.

Forstjóri Kepler Equities, Laurent Quirin, staðfesti að fyrirtækið hefði verið ráðið til að selja bréf í útboðinu í samtali við Viðskiptablaðið í gær, en markaðsvirði bankans eftir sameininguna er 22 milljarðar evra, sem samsvarar tæplega tvö þúsund milljörðum íslenskra króna.

Sameinaður banki, sem hefur hlotið nafnið Natixis, er annar stærsti fjárfestingabanki Frakklands og sagði Quirin að hlutafjársala Keplers í tengslum við útboðið væri stærsta verkefni fyrirtækisins til þessa. Alþjóðlega fjármálafyrirtækið Lazard leiðir útboðið

"Við höfum áhuga á að leiða stærri verkefni. Að þessu sinni erum við meðsöluaðilar (e. co-lead arranger). En við erum eina sjálfstæða verðbréfafyrirtækið sem fékk verkefnið," sagði Quirin.

Natixis verður áfram að miklu leyti í eigu móðurfélaganna Banque Populaires og Caisse dEpargne, en fjármálafyrirtækin tvö munu halda um 34% hlut í sameinðum banka. Natexis Banque Populaires var skráður í kauphöllina í París og mun sameinaður banki notast við þá skráningu.

Hins vegar hefur verið ákveðið að selja hlutafé að verðmæti 5,5 milljarðar evra, sem samsvarar um 494 milljörðum íslenskra króna, eða um 32% af hlutafé Natixis til fjárfesta (e. free float).

Sérfræðingar benda á að verkefnið geti verði mjög arðbært fyrir Kepler, en Quirin vildi ekki segja til um hve mikið fyrirtækið fengi fyrir að selja hlutinn né hve mikinn hlut fyrirtækið hefur verið ráðið til að selja. Sérfræðingar benda á að slík verkefni muni auka þjónustutekjur Landsbanka Íslands erlendis í samræmi við stefnu bankans.

Landsbankinn samþykkti að kaupa 81% hlut í Kepler í fyrra og var heildarvirði fyrirtækisins í viðskiptunum 90 milljónir evra. Markaðsvirði Calyon, sem er einn stærsti banki Frakklands, og er á meðal umsjónaraðila í útboðinu er tæplega 50 milljarðar evra. Landsbankinn á kauprétt á öllum bréfum í Kepler og á því möguleika á að eignast fyrirtækið að fullu.