Fyrirtækið Ró-Box, sem er í eigu nemenda við Tækniskólann, var valið fyrirtæki ársins 2019 í samkeppni Ungra frumkvöðla, Junior Achievement á Íslandi. Mun Ró-Box keppa fyrir hönd Ísland, í Evrópukeppni Ungra frumkvöðla, sem fram fer í Lille, Frakklandi dagana 3. – 5. júlí 2019, á 100 ára afmæli JA á heimsvísu.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í byrjun síðasta mánaðar þegar keppendur kynntu vörur sínar á Vörumessu ungra frumkvöðla voru um 120 fyrirtæki stofnuð til að taka þátt í keppninni að því er Petra Bragadóttir framkvæmdastjóri samkeppninnar hér á landi sagði frá.

Hugmyndin á bakvið sigurvegarann í þetta sinn, Ró-Box er að vera einkahlutafélag sem selur róbota-kit fyrir krakka. Róbota-kittin eru einföld, með íslenskum leiðbeiningum og ætluð til að hjálpa krökkum að læra á tækni og forritun. Hér fyrir neðan má sjá lið Tækniskólans kynna hugmynd sína á keppninni.

Kynning liðs Tækniskólans á samkeppni Ungra frumkvöðla árið 2019
Kynning liðs Tækniskólans á samkeppni Ungra frumkvöðla árið 2019
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Tuttugu fyrirtæki frá 13 framhaldsskólum, voru valin úr hópi 120 fyrirtækja, til að taka þátt í  úrslitum Ungra frumkvöðla 2019.

Eftirfarandi hlutu verðlaun:

  • Fyrirtæki ársins 2019: Ró-Box  (Tækniskólinn)
  • Fyrirtæki ársins - 2. Sæti: Blakkur (Borgarholtsskóli)
  • Fyrirtæki ársins - 3. Sæti: Karma (Menntaskólinn í Kópavogi)
  • Áhugaverðasta nýsköpunin: Fruss (Menntaskólinn við Hamrahlíð)
  • Besti Sjó-Bisnessinn: Haf hársprey (Verslunarskóli Íslands)
  • Fallegasti sölubásinn: Sylque (Verslunarskóli Íslands)
  • Besta matvælafyrirtækið: Gen-Yo (Kvennaskólinn í Reykjavík)
  • Bestu markaðsmálin: Hafmey (Menntaskólinn við Sund)
  • Umhverfisvænasta lausnin: Vei!(Fjölbrautaskólinn í Garðabæ)
  • Besta tæknilausnin: iRadar (Verslunarskóli Íslands)
  • Samfélagsleg nýsköpun: Tilfinningamolar (Borgarholtsskóli)
  • Besta fjármálalausnin: Ungdómur (Fjölbrautaskólinn við Ármúla)
  • Besta hönnunin: A Bag Project (Fjölbrautaskólinn í Garðabæ)

Með fyrirtækjasmiðjunni er frumkvöðlastarf kynnt fyrir framhaldsskólanemum með það að markmiði að efla frumkvöðlaanda meðal ungmenna og þjálfa frumkvöðla framtíðarinnar. Árið 2019 tóku 560 nemendur  í 13 framhaldsskólum þátt og er útlit fyrir að fjöldinn verði enn meiri á næstu árum. Markmiðið er að gefa meirihluta íslenskra nemenda færi á að kynnast frumkvöðlastarfi af eigin raun í námi sínu.

Um Unga frumkvöðla – Junior Achievement

Junior Achievement (JA) eru alþjóðleg félagasamtök sem starfa á heimsvísu en verkefni á vegum samtakanna snerta meira en tíu milljónir nemenda á ári hverju í 122 löndum, þar af yfir fjórar milljónir nemenda í 40 Evrópulöndum.

Samtökin leitast við að undirbúa ungt fólk fyrir framtíðina og auka færni þeirra til atvinnuþátttöku og atvinnusköpunar með því að stuðla að aukinni nýsköpunar-, frumkvöðla- og viðskiptamenntun í skólum. JA á Íslandi er þátttakandi í JA á heimsvísu sem verða 100 ára á þessu ári.

Verkefninu Ungir frumkvöðlar er ætlað að efla íslenska nýsköpunarmenningu með átaki sínu í framhaldsskólum og bætast þar með við  þau átaksverkefni sem fyrir eru á háskólastigi (Startup Reykjavík, Startup Energy Reykjavík) og á grunnskólastigi (Nýsköpunarkeppni grunnskólanna). Öllu þessu starfi er ætlað að hvetja unga fólkið til þess að tileinka sér nýsköpun í starfi sínu og námi.