Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir samkeppnina á fjarskiptamarkaði vera harða. Sjónvarpsmarkaðurinn hefur tekið talsverðum breytingum undanfarin misseri og mikilvægt er fyrir innlendar eftirlitsstofnanir að gefa innlendum fjarskiptafyrirtækjum færi á að keppa við alþjóðleg fyrirtæki í efnisveitu.

Hvernig er samkeppnin á fjarskiptamarkaðnum?

„Keppinautar samstæðunnar eru margir, bæði erlendir og innlendir, opinbert styrktir eða einkareknir og internetið er sameiginlegur snertipunktur. Síminn keppir í auknum mæli við al­ þjóðlega risa á borð við Netflix, Hulu, Google, Apple og jafnvel Facebook og svokallaða „over the top“ (OTT) leikendur sem selja þjónustu sína ofan á kerfum annarra. Mörg þessara fyrirtækja bjóða þjónustuna beint í gegnum sjónvarpið þitt – sem löngu er orðið nettengt.

Svo erum við í samkeppni við hefðbundin fjarskiptafélög á Íslandi, eins og Vodafone, Nova og Hringdu. Fyrir um tíu árum var þetta tvíkeppnismarkaður með Vodafone og Símanum, en núna er samkeppnin bæði virk og hörð. Við erum með aðra mestu áskriftarhlutdeildina á farsímamarkaði (33,8%) á eftir Nova.

Hlutdeild okkar í gagnamagnsnotkun á farsímaneti er hins vegar lág, enda nota viðskiptavinir okkar meira fastlínuna (Wi-Fi), þar sem yfir 95% af gagnamagnsnotkuninni mælist. Í innviðum er samkeppnin minni. Míla sinnir öllum fjarskiptafélögunum sem heildsali og keppir aðallega við Gagnaveitu Reykjavíkur, sem er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur.

Samkeppnin er þannig ólík eftir því hvar í virðiskeðjunni þú ert en hún er alls staðar hörð. Alltaf þarf að leita leiða til að skara fram úr og bjóða virð­ isaukandi þjónustu svo fjarskipti verði ekki að hrávöru. Ekki má slaka á taumunum við að uppfæra fastlínuinnviðina.“

Hvernig hefur sjónvarpsmarkaðurinn verið að breytast?

„Við teljum að línuleg áskrift hafi náð hámarki sínu og að við sem fjarskiptafyrirtæki höfum ekki meira fram að færa í þróun þeirrar vöru einnar og sér. Fólk velur hvað það kýs að horfa á og hvenær – þar getum við orðið að gagni. Við töldum því að það myndi henta okkur betur að vera annars vegar með opna stöð, sem væri á öllum kerfum, og hins vegar með efnisveitu okkar – Sjónvarp Símans Premium, þar sem við erum komin með 6.000 klukkutíma af efni. Það er mun meira efnisframboð heldur en Netflix hér á landi býður.

Þið stofnuðuð félag í Lúxemborg til að nýta evrópska fjölmiðlalöggjöf og keppa við alþjóðlegar efnisveitur. Hver er staðan á félaginu?

„Vodafone taldi að viðskiptavinir sínir, eða viðskiptavinir Vodafone Sjónvarps, ættu að fá aðgang að ólínulegri dagskrá Sjónvarps Símans og að við ættum að bjóða allt sjónvarpsefni okkar í ólínulegri dagskrá til dreifingar á fjarskiptanetum landsins. Við erum ekki að troða illsakir við Vodafone í þessu máli, en höfum mótmælt að fyrirtæki taki upp höfundarvarið efni, án heimildar, sem aðrir eiga og miðli því eftir pöntun til viðskiptavina sinna.

Við viljum bara sitja við sama borð og alþjóðlegir aðilar og keppa við þá. Í efnisveitu er helsti samkeppnisaðili okkar Netflix og við erum að reyna að vera undir sams konar regluverki og þeir. Þeir eru t.d. stað­ settir í Lúxemborg til að nýta evrópska fjölmiðlalöggjöf. Netflix getur framleitt sjónvarpsefni og sett það í sína efnisveitu áður en það er sýnt á öðrum kerfum. Við erum með miklu meira framboð heldur en Netflix, en þeir eru með meiri stærðarhagkvæmni og dreifa kostnaðinum yfir fleiri lönd.

Núna höfum við fjárfest í tveimur íslenskum þáttaseríum sem eru svipaðar að stærð og Ófærð. Ef það er þannig að við munum þurfa að afhenda sjónvarpsefnið okkar og það efni sem við erum að fjárfesta sérstaklega í til keppinauta er lítill hvati til að fjárfesta í innlendu efni – Netflix væri aldrei skikkað til að afhenda Hulu efnið sitt. Við þurfum því sömu leikreglur og þessir erlendu risar. Það er mikilvægt að innlendar eftirlitsstofnanir gefi íslenskum félögum færi á að keppa við þá.

Við eigum félag í Lúxemborg, en höfum ekki virkjað það. Við trúum því ekki að fjölmiðlalög á Íslandi verði túlkuð þannig að þau fæli innlenda aðila frá því að fjárfesta í innlendu sjónvarpsefni. Það yrði séríslensk kvöð og þvert gegn markmiðum fjölmiðlalaga um fjölbreytt íslenskt efni. Ef svo fer erum við með plan B.“

Viðtalið við Orra birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .