„Árið í fyrra var óvenjulega gott, en vöxturinn hefur verið um 15% á ári nánast frá upphafi. Í fyrra nam veltuaukningin um 17%, en í ár verður hún líklega eitthvað lægri eða einhvers staðar á bilinu 12 til 15%. Afkoman í ár verður svo eitthvað svipuð og í fyrra," segir Dagbjartur Pálsson, annar tveggja framkvæmdastjóra DK Hugbúnaðar, sem segir nýsköpun vera lykilinn í vexti félagsins.

„Vöxturinn snýst um nýsköpun, að vera stöðugt að koma með eitthvað nýtt. DK viðskiptahugbúnaðurinn getur þjónustað nánast öll fyrirtæki á landinu, en það má segja að þetta sé mjög notendavæn og góð heildarlausn, þá sérstaklega fyrir minni og miðlungsstór fyrirtæki. Þau nota þetta til að halda utan um bókhaldið, reikna út laun og skrifa út reikninga. Síðan erum við með lausn fyrir stéttarfélög og önnur félagasamtök sem heldur utan um félaga og félagsgjöldin, umsóknir um styrki og svo framvegis. Einnig erum við með framleiðslukerfi fyrir framleiðslufyrirtæki, tímaskráningar- og verkbókhaldskerfi, ásamt stimpilklukku fyrir þjónustufyrirtæki, afgreiðslu- og hótelkerfi fyrir ferðaþjónustuna og sérhæfðari afgreiðslukerfi fyrir verslanir."

Þrátt fyrir mikla samkeppni um viðskiptavini frá stórum erlendum aðilum segir Dagbjartur fyrirtækið bæta nú við sig um 500 nýjum viðskiptavinum á ári hverju.

„Við sinnum í dag nálega 6.500 fyrirtækjum og erum í raun langstærstir þegar kemur að fjölda fyrirtækja. Þar af eru um 4.000 sem nýta sér skýjalausnir okkar. Það er að hluta til vegna sérhæfingar okkar, en við erum með lausnir fyrir allan íslenska markaðinn, enda höfum við verið lengi á honum, þekkjum hann vel og þarfir hans. Þetta snýst allt um þjónustu, að sinna viðskiptavininum og við reynum af fremsta megni að standa okkur þar," segir Dagbjartur.

„Okkar stærsti samkeppnisaðili undanfarin 15 ár hefur verið Microsoft, en erlendi hugbúnaðurinn, þó að hann hafi verið íslenskaður og staðfærður, hefur ekki alveg sama sveigjanleika og DK hugbúnaðurinn sem er skrifaður frá grunni af okkur. Þetta er í raun eina ahliða viðskipta- og bókhaldskerfið á markaðnum sem er alveg íslenskt frá grunni, sem gefur okkur þá sérstöðu að við getum brugðist hraðar við, ef það þarf að breyta eða bæta einhverju við, en erlendu kerfin. Við höfum einungis útvistað litlum hluta verkefna okkar, þá helst þann sem er í kringum þessi öpp og snjalltæki."

Sem dæmi um sérhæfinguna nefnir Dagbjartur að þegar félagið stóð í útrás til Norðurlandanna og Bretlands, þá hafi ekki gengið að þýða íslenska launakerfið eins og þeir gátu gert fyrir önnur kerfi félagsins, heldur voru skrifuð ný.

„Allt í kringum launakerfið gengur til dæmis ekki í erlenda hugbúnaðinum án töluverðra breytinga, enda er umgjörð þess ekki eins í neinu landi. Það þarf að skrifa það allt upp á nýtt hvort sem það er vegna skattkorta, lífeyrissjóða, stéttarfélaga, launaþrepa, launaflokka og launataflna og allt hvað eina," segir Dagbjartur og nefnir dæmi.

„Virðisaukaskatturinn er öðruvísi hér á landi en til dæmis í Bandaríkjunum þar sem er söluskattur, sem er mismunandi milli fylkja, svo ameríska kerfið gengur ekki beint inn á íslenska markaðinn. Einnig eru virðisaukaskattskýrslur ekki eins á Íslandi og í Svíþjóð sem dæmi, rafræn samskipti við banka eru öðruvísi, hér fara þau til dæmis öll í gegnum Reiknistofu bankanna, og svo framvegis. Við munum áfram vinna að því að finna íslenskar lausnir og þannig auka og bæta vöruframboðið."

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .