Konur skipa 28 af þeim 44 stjórnarmönnum sem ráðnir hafa verið á þessu ári af frönskum fyrirtækjum í CAC vísitölunni. Með þessu eru fyrirtækin að leitast við að uppfylla ákvæði laga sem samþykkt voru í landinu árið 2011 og fela í sér að að lágmarki 40% stjórnarmana hjá fyrirtækjum í CAC vísitölunni verði að vera konur fyrir árið 2017.

Samkeppnin um reynda starfskrafta hefur í kjölfarið harnað eftir því sem nær dregur og hafa fyrirtækin því í meira mæli tekið uppá því að leita út fyrir landsteinana að reyndum kvenkyns stjórnarmönnum. Afleiðingin er sú að um helmingur þeirra kvenna sem ráðnar hafa verið í ár eru  frá öðrum löndum en Frakklandi. Takist fyrirtækjunum ekki að fylla kynjakvótann fyrir tilsettan tíma verður þeim óheimilt að gera breytingar á stjórnarmönnum sínum nema það færi þau nær takmarki lagasetningarinnar.

Frakkland hefur verið leiðandi í þessum efnum síðastliðin ár og voru til að mynda 30% stjórnarmanna í stæðstu fyrirtækjum landsins konur árið 2014. Til samanburðar var hlutfall kvenna í sambærilegum stöðum aðeins 25% í Bretlandi og 19% í rótgrónum fyrirtækjum í Þýskalandi.

Það er af sem áður var en árið 2006 var hlutur kvenna í stjórnum franskra stórfyrirtækja aðeins 8%.