Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup Haga á Reykjavíkur Apóteki. Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu kemur fram að markaðshlutdeild Reykjavíkur Apóteks sé hverfandi, um 1%, og það reki aðeins eitt apótek.

Keppinautar Haga sem sendu Samkeppniseftirlitinu umsagnir eru þó ekki á sama máli. Það sem Samkeppniseftirlitið kallar keppinaut 1 telur aðgang Haga að sterkum staðsetningum í gegnum þéttriðið verslananet þeirra og dótturfélaga myndi gera þeim kleift að fjölga afgreiðslustöðum Reykjavíkur Apóteks hratt. „Keppinautur 1 taldi varhugavert að Hagar gætu í krafti stærðar sinnar og fjárhagslegs styrkleika náð sterkum tökum á lyfsölumarkaði á kostnað smærri sjálfstæðra apóteka enda teldi hann að tangarhald Haga á birgjum gæti einnig átt við um lyfsölubirgja þegar fram í sækir. Enn fremur taldi Keppinautur 1 að áhrifa myndi gæta á markaði með snyrtivörur, barnavörur og ýmsar aðra vörur tengdri lýðheilsu sem apótek sérhæfa sig í,“ segir í ákvörðun SKE.

Þá benti keppinautur 2 á að Hagar væri þegar orðin ríkjandi í sölu á snyrtivörum og þriðji keppinauturinn taldi að samruninn myndi hafa skaðleg áhrif vegna víðtæks húsakosts Haga sem hægt væri að samnýta fyrir lyfjabúðir og þannig skapa Högum fljótt sterka stöðu með innkomu sinni á markað fyrir lyfjabúðir. Keppinautur 4 lýsti fyrst og fremst yfir áhyggjum af dagvörumarkaðnum, þar sem markaðshlutdeild Reykjavíkur Apóteks myndi styrkja markaðsráðandi stöðu Haga á dagvörumarkaði.

Haga svöruðu því að markaðsráðandi staða yrði ekki til staðar. Þá myndi samruninn vera til þess fallinn að brjóta upp það mynstur sem verið hefur á markaði fyrir smásölu lyfja. „Með samrunanum myndu skapast skilyrði fyrir nýjan aðila til að hefja innreið á lyfjamarkað í samkeppni við lyfjakeðjurnar og Costco ,“ segir um svör Haga í ákvörðun SKE.