Verslanakeðjan Somerfield þykir ekki sú fínasta í Bretlandi en hún er sú fimmta stærsta -- að vísu talsvert minni en hinar fjórar -- og markaðssérfræðingar eru sammála um að hún sé sú síðasta af þeim "stóru" sem mögulegt er að yfirtaka.

Baugur hefur sem kunnugt er boðið í keðjuna og á reyndar þegar 5,5% í henni, en fleiri hafa nú blandað sér í baráttuna. Ljóst er að kaupverðið verður ekki undir einum milljarði punda eða um 115 milljörðum króna. Um þessar mundir eru að hefjast samningaviðræður við þrjá aðila: Baug, Robert Tchenguiz, sem er einn mest áberandi fasteignajöfur Bretlands ásamt bróður sínum Vincent, og Livingstone-bræður, sem eru líka fasteignajöfrar en í hópi þeirra leyndardómsfyllstu, öfugt við Tchenguiz-bræður.

Breska blaðið Independent fór ofan í saumana á þessum keppinautum í vikunni og er byggt á þeirri umfjöllun hér. Óþarft er að rekja umfjöllunina um Baug, en þó er rétt að geta þess að Independent segir að Baugur hafi áunnið sér virðingu í Bretlandi og hefur eftir sérfræðingum á markaðnum að fjárfestingar fyrirtækisins virðist hafa verið skynsamlegar hingað til.

Fram kemur í Independent að fasteignir Somerfield séu hugsanlega ríflega 115 milljarða króna virði. Það kemur því kannski ekki á óvart að tilboðin koma frá aðilum sem allir hafa haslað sér völl á fasteignamarkaði.

Livingstone-bræður

Ian og Richard Livingstone sjást sjaldan blanda geði við kollega sína á skemmtistöðum og klúbbum. Þeir eru "utangarðsmenn" í fasteignabransanum, einfarar og jafnvel feimnir að sögn sumra. Veldi þeirra er hins vegar mikið. Fyrirtæki þeirra, London & Regional, á fasteignir um allan heim sem talið er að séu fast að 500 milljarða króna virði. Á meðal þeirra eru Hilton hótelið við Park Lane, hundruð Woolworths verslana og höfuðstöðvar Marks & Spencer við Baker Street.

Rétt eins og Tchenguiz-bræður beita Livingstone-bræður flóknum viðskiptafléttum sem gjarnan fela í sér mikla skuldsetningu. Þetta, ásamt snerpu þeirra og hraða, er lykillinn að árangri þeirra. Keppinautar þeirra bera flestir virðingu fyrir þeim. Þeir þykja "siðfágaðri" en Tchenguiz-bræður þótt sumir segi að þeir séu "hrokafullir" og "erfiðir".

Bræðurnir eru 42 og 40 ára. Lykillinn að veldi þeirra var fasteignasala sem þeir stofnuðu og seldu síðan fyrir ríflega 10 milljarða króna árið 1994.

Tchenguiz-bræður

Fjölskylda keppinautanna, Roberts og Vincent Tchenguiz, á rætur að rekja til Íraks. Fjölskyldan flýði til Írans á 6. áratug, þar sem þeir bræður eru fæddir, og loks til Bretlands eftir byltinguna 1979. Bræðurnir, sem eru 48 og 44 ára, hlutu menntun sína í Bandaríkjunum. Þeir eiga fast sæti í heimsliði glaumgosa; þeir eiga stóran flota af glæsilegum fornbílum, snekkjur og sumarheimili í St. Tropez. Robert átti í ástarsambandi við ofurfyrirsætuna Caprice og Vincent viðurkennir fúslega að klúbbar, kampavín og kvenfólk séu meðal helstu áhugamála sinna. Hann stundar líka fjárhættuspil og græddi yfir 100 milljónir þegar hann veðjaði rétt á sigurvegara Evrópukeppninnar í knattspyrnu í fyrra. Robert er sá sem stendur að tilboðinu í Somerfield, ásamt Apax Partners og Barclays Capital.

Bræðurnir hófu viðskipti með fasteignir 1982 og innleiddu alveg nýjar leiðir í þeim viðskiptum. Í stað þess að fá lán með veði í verðmæti fasteignanna tóku þeir lán út á framtíðarhúsaleigu. Aðferðir þeirra eru óhefðbundnar og umdeildar.

Talið er að fasteignir þeirra séu nærri 500 milljarða króna virði -- eins og fasteignir Livingstone-bræðra -- og á meðal þeirra eru um 60 Somerfield verslanir.

Independent segir að enginn treysti sér til að veðja á hver fari með sigur af hólmi í þessari keppni, en bendir þó á að Robert Tchenguiz sé ekki þekktur fyrir að leggjast í valinn. -- Við bætum við: Ekki Jón Ásgeir heldur.