*

sunnudagur, 7. mars 2021
Innlent 14. janúar 2021 12:58

Keppinautur Icelandair hættir Ameríkuflugi

Norwegian sker inn að beini í enn einni björgunaraðgerðinni. Félagið var einn helsti keppinautur íslenskra flugfélaga í Ameríkuflugi.

Ritstjórn
epa

Norwegian, einn helsti keppinautur íslenskra flugfélaga í leiðinni yfir Atlantshafið, ætlar að hætta Ameríkuflugi og öðrum lengri flugleiðum einbeita sér að flugi á Norðurlöndunum og Evrópu. Skera á flugflota félagsins niður úr um 140 flugvélum í 50 flugvélar á þessu ári. Þó stefnir félagið á að stækka flotann í 70 vélar á næsta ári, en bara ef það stendur undir sér.

Þá hyggst félagið afla sér 4-5 milljarða norskra króna í nýtt hlutafé og reyna að ná skuldum félagsins niður um 20 milljarða norskra króna. Dómari á Írlandi þarf að samþykkja áætlunina þar sem dótturfélög Norwegian eru í greiðslustöðvun þar í landi. Gangi aðgerðirnar eftir mun hlutur núverandi hluthafar þynnast niður í 5%. Segja má að félagið hafi lengi verið við bjargbrúnina en hingað til hefur félaginu alltaf tekist að afla nægjanlegs hlutafjár til að halda áfram rekstri.

Norwegian hyggst segja upp 2.100 manns, þar af um 1.100 á Bretlandi. Hluti af aðgerðunum felast í viðræðum við norsk stjórnvöld sem höfnuðu í nóvember frekari stuðningi við félagið. Nú er unnið með nýja útfærslu ríkisstuðnings sem norsk stjórnvöld eru sögð vera að skoða.

Leiddu verðstríð í Ameríkuflugi

Norwegian er sagt eiga mikinn þátt í því hve lág flugfargjöld voru yfir Atlantshafið á síðustu árum, það er að segja, áður en COVID kreppan skall á. Félagið var í senn keppinautur Icelandair og WOW í Ameríkuflugi. Í fjárfestakynning Icelandair fyrir hlutafjárútboðið á síðasta ári var flugleiðin frá Boston til Kaupmannahafnar tekin sem dæmi. Árið 2016 hófu bæði SAS og Norwegian að fljúga beint á milli borganna. Það leiddi bæði af sér lægri flugfargjöld og að markaðshlutdeild Icelandair á flugleiðinni lækkaði úr um 40% í um 14-15%. Í fjárfestakynningunni voru leiddar að því líkur að eftir faraldurinn myndi markaðshlutdeild Icelandair hækka á ný og flugfargjöld yrðu hærri. 

Flug á milli Bandaríkjanna og Evrópu liggur að mestu niðri vegna faraldursins. Icelandair hefur fengið greitt frá íslenska ríkinu fyrir áætlunarflug til Bandaríkjanna síðustu mánuði.