*

þriðjudagur, 20. október 2020
Erlent 6. ágúst 2020 11:24

Keppinautur Tesla fimmfaldar tap sitt

Tekjur Nikola á öðrum ársfjórðungi komu einungis til vegna sölu til framkvæmdastjóra félagsins, tap nam 11,7 milljörðum króna.

Ritstjórn
Nikola hefur sölu á bílum sínum á næsta ári.

Rafbílaframleiðandinn Nikola tapaði tæplega 87 milljónum dollara, andvirði 11,7 milljarða króna, á öðrum ársfjórðungi sem var fyrsti fjórðungur félagsins eftir að hafa skráð sig á markað. Tap Nikola er fimm sinnum meira en á sama tíma fyrir ári, hlutabréf félagsins lækkuðu um allt að 17% í kjölfarið á uppgjörinu.

Tekjur félagsins námu 36 þúsund dollurum á öðrum ársfjórðungi, um 4,9 milljónir króna, sem félagið fékk vegna uppsetningar á sólarsellu fyrir framkvæmdastjóra félagsins. Félagið hafði áður tilkynnt að það gerði ekki ráð fyrir tekjum fyrr en árið 2021 þegar það hefur sölu á sínum fyrsta bíl.

Markaðsvirði Nikola er nú um 12,6 milljarðar dollara, andvirði 1.707 milljarðar króna. Til samanburðar er markaðsvirði Ford um 27,7 milljarðar dollara en Nikola var um stutta stund verðmætara en Ford fyrr á árinu. Frá þessu er greint á vef CNBC.

Frá því að félagið fór á markað 2. desember 2019 hafa hlutabréf þess ríflega þrefaldast þar til nú og stendur hvert bréf í 35 dollurum. Hæst fóru bréf félagsins í 65,9 dollara hvert.

Stikkorð: árshlutauppgjör Nikola