Smjörsala hefur aukist töluvert það sem af er ári og ber þróun hér á Íslandi þar saman við þróunina hjá nágrönnum okkar í Noregi. Salan hefur aukist um 7% á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við sama tíma á síðasta ári en í Noregi er aukningin 13%. Eins og komst í hámæli skömmu fyrir síðustu jól varð mikill smjörskortur í Noregi og óskuðu Norðmenn meðal annars eftir neyðaraðstoð frá Íslandi.

Að auki varð nokkuð um svartamarkaðsbrask með smjör sem óprúttnir aðilar fluttu inn til landsins. Aðalsteinn H. Magnússon, sölustjóri í Mjólkursamsölunni, segir Íslendinga ekki þurfa að óttast smjörskort og telur áætlanir MS nákvæmar. Norska mjólkursamsalan Tine hefur hins vegar gripið til varúðarráðstafana og ætlar að flytja inn 200 tonn af smjöri.