Stjórn Kers hf. hefur tekið ákvörðun um að selja allt hlutafé félagsins í Olíufélaginu ehf. Í frétt á heimasíðu félagsins kemur fram að ákvörðun Kers tengist breyttum áherslum á fjárfestingarstefnu félagsins sem miða að því að auka vægi fjárfestinga erlendis, einkum í Evrópu og jafnframt í íslenskum fyrirtækjum sem starfa bæði á erlendum mörkuðum sem og innlendum. Íslandsbanki mun hafa umsjón með söluferlinu

Olíufélagið ehf. var stofnað í desember 2001 og tók hinn 1. janúar 2002 yfir þá starfsemi Olíufélagsins hf., nú Kers hf., sem tengdist upphaflegri kjarnastarfsemi þess félags. Starfsemi Olíufélagsins snýr að innflutningi og sölu á eldsneyti auk þess sem Olíufélagið hefur þróað rekstur þægindavöruverslana á neytendamarkaði og sölu ýmissa rekstrarvara á fyrirtækjamarkaði. Á liðnum árum hefur verið unnið markvisst að því að efla og styrkja starfsemi fyrirtækisins og líta núverandi eigendur Olíufélagsins svo á að því umbreytingarverkefni sé lokið.

Stærsti söluaðili eldsneytis á Íslandi

Olíufélagið er í dag stærsti söluaðili eldsneytis á Íslandi og seldi á síðasta ári um 350 milljónir lítra af eldsneyti. Félagið rekur samtals um 100 þjónustustöðvar um allt land og hefur aðgang að öflugu birgða- og dreifikerfi ásamt því að reka 10 sérverslanir sniðar að þörfum stórnotenda. Um 400 starfsmenn starfa hjá Olíufélaginu. Olíufélagið er með samning við ExxonMobil og einkaleyfi á notkun vörumerkisins Esso á Íslandi.

Í frétt félagsins kemur fram að það er von stjórnar Kers hf. að viðskiptamenn og starfsmenn Olíufélagsins verði fyrir sem minnstum óþægindum af þeirri tímabundnu óvissu sem fyrirsjáanleg breyting á eignarhaldi þess hefur í för með sér.