Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Kerecis hefur sett stefnuna á að velta félagsins verði orðin allt að 500 milljónir dala á ári, um 70 milljarðar íslenskra króna, eftir þrjú til fimm ár.

Þetta kom fram í máli Guðmundar Fertram Sigurjónssonar, forstjóra og stofnanda Kerecis, á aðalfundi félagsins á mánudaginn. Gangi það eftir má áætla að fyrirtækið verði orðið meðal tuttugu stærstu fyrirtækja landsins þegar kemur að veltu.

Tekjurnar nífaldast á þremur árum

Kerecis hefur vaxið hratt á síðustu árum. Veltan árið 2019 nam 7,8 milljónum dollara, var 29 milljónir dollara árið 2021 en 74 milljónir dollara á síðasta rekstrarári sem lauk 30. september 2022. Rekstraráætlun þessa árs gerir ráð fyrir að tekjur félagsins verði um 110-130 milljónir dollara eða um 15-18 milljarðar íslenskra króna.

Guðmundur sagði að 500 milljóna dollara veltumarkmiðið gæti náðst með markvissum aðgerðum og nefndi sérstaklega fimm atriði. Að fjölga sölusvæðum og sölumönnum í Bandaríkjunum svo að sölunet félagsins nái yfir allar stærstu borgir landsins, efla áfram stafrænar lausnir félagsins, ráðast í markvissa markaðsherferð meðal almennings, breikka núverandi vöruúrval og auka tekjurnar á hverju markaðssvæði fyrir sig.

Nánar er fjallað um Kerecis í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 2. febrúar 2023.