*

föstudagur, 7. ágúst 2020
Innlent 7. febrúar 2019 09:09

Kerecis kaupir svissneskt sárafyrirtæki

Samhliða kynningu á nýsamþykktu sáraroði Kerecis sem Phytoceuticals sá um hefur verið samið um kaup á félaginu.

Ritstjórn
Guðmundur Fertram Sigurjónsson er forstjóri Kerecis sem hefur fengið sárasoð sitt samþykkt til meðhöndlunar í heilbrigðisfyrirtækjum í Sviss, en félagið hefur jafnframt keypt þarlent fyrirtæki sem sá um kynninguna á meðferðarúrræðinu við sárum.
Haraldur Guðjónsson

Svissnesk heilbrigðisyfirvöld tilkynntu Kerecis í þessari viku að sáraroð fyrirtækisins hafi verið samþykkt sem meðhöndlunarúrræði á Svissneskum spítölum og göngudeildum. Þar með er Sviss fyrsta Evrópulandið sem samþykkir sáraroðið sem meðhöndlunarúrræði bæði á spítölum og göngudeildum og greiðir fyrir notkun á báðum stöðum. 

Samþykkið er sagður mikilvægur áfangi fyrir Kerecis í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu sem og fyrir útbreiðslu sáraroðs sem almenns meðhöndlunarúrræðis fyrir erfið þrálát sár sem leitt geta til aflimunar. 

Fyrir er sáraroðið selt í nokkrum Evrópulöndum en engöngu til spítalanotkunar. Kerecis hefur átt í viðræðum við Svissnesk heilbrigðisyfirvöld undanfarin tvö ár og hafa jákvæðar niðurstöður í stórum klínískum prófunum sem Kerecis hefur tilkynnt um undanfarin misseri átt mikilvægan þátt í að afla samþykkisins.

Keyptu svissneskt samstarfsfyrirtæki 

Samhliða viðræðum við Svissnesk heilbrigðisyfirvöld, hefur Kerecis verið í viðræðum um kaup á sárafyrirækinu Phytoceuticals í Zurich til að geta selt vöruna með eigin sölumönnum til svissneskra heilbrigðisstofnanna.

Kerecis hefur gengið frá kaupunum og fær með því 4 sölustarfsmenn í Sviss auk annara starfsmanna. Með þessu er Kerecis með 25 sölumenn í Bandaríkjunum, einn á Íslandi og 4 í Sviss. Allir þessir sölumenn eru að selja beint til heilbrigðistofnanna. Auk þess selur Kerecis vörur sínar gegnum umboðssölumenn og dreifingaraðila.

Eftirspurn eftir nýjum meðhöndlunarúrræðum í Sviss fyrir sykursýkissár er mikil. Í Sviss búa 8,5 milljón manns og í landinu er afskaplega vel þróað heilbrigðiskerfi. Svisslendingar verja næst mest allra þjóða í heilbrigðismál og eru Bandaríkin eina þjóðin sem ver hærra hlutfalli af þjóðarframleiðslu í þann málaflokk. 

Tíðni sykursýki hefur tvöfaldast á síðustu 15 árum í Sviss og er talið að 50.000 manns þjáist þar af sykursýkissárum og að 7500 séu aflimaðir árlega vegna þeirra.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis segir þetta vera mikilvægt skref fyrir félagið á Evrópumarkaði. „Það eru hinsvegar 50 lönd í Evrópu og gríðarmikil vinna að sannfæra heilbrigðisyfirvöld í þeim öllum um að greiða fyrir vöruna,“ segir Guðmundur Fertram.

„Það hefur gengið vel hjá okkur að selja sáraroðið á Bandaríkjamarkaði og höfum við nú þrefaldað söluna þar þrjú ár í röð. Með þessari ákvörðun Svissneskra heilbrigðisyfirvalda er aðgangur Svisslendinga orðin sá sami að roðinu og Bandaríkjamanna.“ Guðmundur Fertram segir Sviss ákjósanlega áherslumarkað fyrir Kerecis vegna þess hve mikið þeir verja í heilbrigðismál. 

„Við höfum undanfarna mánuði verið að skoða Phytoceuticals sem mögulegan samstarfsaðila í Sviss og eftir ítarlega skoðun ákveðið að kaupa fyrirtækið. Eftir kaupin rekur fyrirtækið auk höfuðstöðva fyrirtækisins á Ísafirði, starfstöðvar á DC svæðinu í Bandaríkjunu, í Reykjavik, í Zurich og er fjöldi starfsmanna um 80 manns.“

Eduardo Theiler forstjóri Phytoceuticals segir það stórfrétt að svissnesk heilbrigðisyfirvöld hafi samþykkt notkun og greiðslu á Kerecis Omega3 sáraroðinu í Sviss. „Við höfum undanfarið ár unnið að því að kynna rannsóknargögn Kerecis fyrir svissneskum heilbrigðisyfirvöldum og læknum,“ segir Theiler. 

„Þessi vinna hefur nú leitt til þess að varan er greidd í Sviss og næsta skref er að ná til sem flestra heilbrigðisstofanna í Sviss sem meðhöndla hinn ört vaxandi hóp sjúklinga sem þjást af sykursýki og sykursýkissárum.“