„Við erum litli óþekki strákurinn sem er að hrista upp í hlutunum. Okkar samkeppnisaðilar eyddu mun hærri fjárhæðum í að komast á þann stað sem við erum komin á,“ segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og stjórnarformaður Kerecis. Félagið tryggði sér nýlega þriggja milljarða króna lánsfjármögnun frá Silicon Valley Bank og hluthöfum félagsins líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í vikunni.

Markmiðið fjármögnunarinnar er að efla sölukerfi félagsins í Bandaríkjunum við sölu á sáraroð. Samkeppnisaðilar félagsins eru stórfyrirtæki sem velta allir yfir milljarði dollara. Kerecis er nú með um 50 sölumenn í Bandaríkjunum en stefnt er að því að þeir verði um 200.

Guðmundur segir að það stefni í að tekjur félagsins á yfirstandandi rekstarári af sölu á sáraroði, sem lýkur í september, verði 16-18 milljónir dollara sem sé í samræmi við tölur sem félagið gerði ráð fyrir á aðalfundi félagsins undir lok síðasta árs.

Félagið hafði jafnframt vonast eftir tekjum af nýjum vörum á þessu ári, sem ekki hafa gengið eftir heimsfaraldursins. „COVID-19 faraldurinn hefur valdið því að þróun þeirra hefur tafist, bæði hjá FDA (Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna) og rannsóknaraðilum. Því frestast það um ár að koma nýju vörunum á markað.“  Hann bendir á að tekjur félagsins af sáraroðinu hafi engu síður meiri en tvöfaldast á milli ára. Kerecis var valið vaxtarsproti ársins á fimmtudaginn . Markmið félagsins sé að tvöfalda rekstrartekjurnar á hverju ári næstu árin.

Breyttu markaðsstarfi vegna faraldursins

Kerecis hefur þurft að finna nýjar leiðir til að nálgast lækna og stjórnendur spítala til að kynna sáraroðið í heimsfaraldrinum þar sem ráðstefnur og vörusýningar hafa að mestu lagst af. Liður í því var að Kerecis gaf út smáforrit til að auka rafræna sölu og auðvelda samskipti bæði við lækna og tryggingafélög vegna kostnaðarhlutdeildar sjúklinga.Venjan vestanhafs er að slíkt fari að mestu fram í gegnum faxtæki.

Færri ráðstefnur og ferðalög hafa að sama skapi dregið úr kostnaði við markaðsstarf. „Við höfum eytt háum fjárhæðum í læknaráðstefnur og sýningar þar sem við höfum verið með bása. Það er hins vegar skammgóður vermir að spara þennan pening því að þetta hefur verið okkar leið til að finna nýja viðskiptavini.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .