Forsvarsmenn lækningavörufyrirtækisins Kerecis og Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle hafa undirritað samning um samstarf og mun Kerecis héðan í frá taka virkan þátt í baráttunni fyrir málefnum heimskautasvæðisins.

Í fréttatilkynningu segir að fyrirtækið muni hafa bein áhrif á og taka þátt í vinnu Arctic Circle, stuðla að nýsköpun og leggja sitt af mörkum til að vernda Norður-Atlantshafið, þangað sem Kerecis sækir hráefni sitt til framleiðslu á sáravörum úr þorskroði.

Kerecis verður þátttakandi í umræðum og viðburðum Arctic Circle. Fyrirtækið tekur m.a. þátt í hugmyndavinnu og undirbúningi árlegs þings Arctic Circle, sem haldið er í Reykjavík með þátttöku 2.000 gesta frá yfir 60 löndum, þar á meðal þjóðhöfðingja, ráðherra, vísindamenn, frumkvöðla, stjórnenda fyrirtækja og námsmanna sem láta sig málefni norðurslóða varða.

Sjá einnig: Amazon toppur heimsótti Ísafjörð

Sömuleiðis gefst Kerecis tækifæri á að taka þátt í minni viðburðum Arctic Circle í öðrum löndum, til að mynda í Grænlandi í ágúst og í Japan árið 2023.

„Þetta er afar spennandi samstarf og við hlökkum til að taka þátt í samræðum um málefni norðurslóða,“ sagði Guðmundur Fertram Sigurjónsson , stofnandi og forstjóri Kerecis. „Heimskautasvæðið skiptir okkur miklu máli, bæði fyrirtækið sjálft og starfsfólkið sem vill berjast gegn yfirvofandi náttúruvá og stuðla að sjálfbærni. Áskoranirnar eru af ýmsu tagi, en við trúum því að lausnirnar felist í víðtækri samvinnu fólks úr öllum áttum.“

Kerecis framleiðir lækningavörur úr fiskroði, sem mest eru notaðar við meðhöndlun þrálátra sára, brunasára og í skurðaðgerðum. Fiskroðið kemur úr villtum Atlantshafsþorski, veiddum úr sjálfbærum fiskistofni í ósnortinni íslenskri lögsögu. Fyrirtækið hefur stækkað hratt á undanförnum árum og náð góðri fótfestu á mikilvægum mörkuðum.

„Við hlökkum til samstarfsins og væntum mikils af starfsfólki Kerecis, sem hefur brennandi áhuga á málefnum Norðurslóða og sýnir mikla ábyrgð í sinni nýtingu á hráefni úr hafinu,“ er haft eftir Ásdísi Ólafsdóttur , forstjóra Arctic Circle. „Það er okkur sönn ánægja að fá Kerecis til liðs við okkur.”