Nýsköpunarfyrirtækið Kerecis hefur opnað skrifstofu í Washington D.C. í Bandaríkjunum og ráðið Chris Harte sem rekstrarstjóra félagsins í Norður-Ameríku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Fyrirtækið hefur að undanförnu þróað stoðefni sem markaðssett er undir nafninu Kerecis Omega3. Er þar um að ræða roð af íslenskum þorski, þar sem allar frumur hafa verið fjarlægðar, þannig að eftir stendur stoðefni búið til úr millifrumuefni. Við notkun er efnið lagt á sár og hjálpar það til við að endurskapa skaðaðan húðvef.

Chris starfaði áður við viðskiptaþróun hjá fyrirtækinu UXC Eclipse, en fram að því starfaði hann hjá Tectura, forvera fyrirtækisins, frá árinu 2002. Hann er með BA-gráðu í sögu frá Clemson University og MBA gráðu frá University of South Carolina.