Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti nýverið um að ákveðið hafi verið að ganga til samninga við Kerecis um fjármögnun áframhaldandi prófana og þróunar á sáraroði Kerecis bruna- og sprengjusára. Nýja fjármagnið er um 120 milljón króna. Um er að ræða framhaldsfjármögnun á fyrri verkefnum Kerecis á þessu sviði. Með þessari fjármögnun eru styrkjaloforð vegna framtíðarverkefna Kerecis orðin vel yfir hálfan milljarð króna m.a. frá Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, Evrópusambandinu og Tækniþróunarsjóði. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

„Kerecis Omega3 Burn er Omega3-ríkt þorskroð ætlað til meðhöndlunar á bruna- og bráðasárum. Varan hefur þegar fengið samþykki bandarískra lyfjaeftirlitsins (FDA) og er hér um að ræða fjármögnun á frekari prófunum og útfærslum af roðinu til að tryggja að varan henti til notkunar á hamfarasvæðum,“ segir í tilkynningunni.

Í tilkynningunni segir jafnframt að nota megi brunasáraroðið bæði sem upphafsmeðhöndlun um leið og til áverka kemur, og til að græða sár eftir hreinsun þeirra:

  • Þegar roðið er notað til upphafsmeðhöndlunar er roðið lagt strax á óhreinsaðan áverkann og haft á þar til sjúklingurinn er kominn undir læknishendur þegar það er fjarlægt.
  • Þegar roðið er notað til að græða sár eru dauðir líkamsvefir fjarlægðir úr sárinu og roðbúturinn lagður ofan í hreinsað sárið og vaxa þá heilbrigðar frumur líkamans inní efnið. Frumurnar hefja þar uppbyggingu á nýjum líkamsvef á meðan efni Kerecis brotnar hægt niður og skilur eftir sig nýjan líkamsvef.

„Brunasáraroðið getur haft mikilvægt notagildi við meðhöndlun á hópbrunaslysum t.d. eftir jarðelda eins og urðu á Nýja Sjálandi þegar 30 manns brunnu alvarlega og líkhúð var ekki tiltæki til að meðhöndla alla sjúklingana. Alls létust 21 manns.

Aukin notkun á heimagerðum sprengjum í vopnuðum átökum hefur leitt til fjölgunar á erfiðum brunasárum og hærri dánartíðni særðra. Til að bjarga mannslífum og auka lífsgæði eftir slíka áverka  er mikilvægt að fram komi bætt meðhöndlunarúrræði og teljum við að tækni okkar leggi þar mikilvæg lóð á vogarskálarnar.

Það hefur gengið vel hjá okkur að afla styrkja undanfarin ár. Stuðningur Tækniþróunarsjóðs við verkefni okkar eru lykilatriði í styrkjamálum okkar og iðulega er það þannig að þeir hafa veitt verkefnum fyrst styrk og í kjölfarið hafa erlendir styrktaraðilar komið inn í verkefnin með meira fjármagn."

„Kerecis er í dag aðallega sölu- og markaðsfyrirtæki, en rannsókna- og þróunarverkefni halda áfram að vera afskaplega mikilvæg fyrir okkur og koma til með tryggja að við höldum okkar tæknilega forskoti í meðhöndlun á alvarlegum sárum og vefjaskaða," er haft eftir Hilmari Kjartanssyni bráðalækni, meðstofnanda og yfirmanni klínískrar þróunar hjá Kerecis.