Tekjur lækningavörufyrirtækisins Kerecis ríflega tvöfölduðust á síðasta rekstrarári og námu tæplega 16,7 milljónum dala, eða sem nemur tæplega 2,2 milljörðum króna. Á sama tímabili árið áður velti félagið um einum milljarði króna. Síðasta rekstrarár Kerecis náði frá tímabilinu 1. október 2019 til 30. september 2020. Tap félagsins á tímabilinu nam tæplega 2,6 milljónum dala, sem nemur um 336 milljónum króna. Dróst tapið umtalsvert saman frá fyrra reikningsári er félagið tapaði 6,8 milljónum dala. Þetta kemur fram í ársskýrslu Kerecis fyrir síðasta rekstrarár sem kynnt var að aðalfundi félagsins sem fram fór á dögunum.

Starfsemi Kerecis felur í sér framleiðslu á afurðum sem byggðar eru á affrumuðu þorskroði, sem inniheldur fjölómettaðar fitusýrur en sýnt hefur verið fram á að roðið hefur jákvæð áhrif á frumuinnvöxt. Lykilvara Kerecis í dag er sáraroð sem notað er til meðhöndlunar á brunasárum og þrálátum sárum vegna sykursýki. Félagið var stofnað af Guðmundi Fertram Sigurjónssyni ásamt læknunum Hilmari Kjartanssyni, Baldri Tuma Baldurssyni og einkaleyfalögfræðingnum Ernest Kenney.

Í ársskýrslunni kemur fram að megináhersla félagsins um þessar mundir sé að byggja upp sárasöluteymi félagsins í Bandaríkjunum ásamt því að þróa markaði- og vörur fyrir nýjar ábendingar. Söluáætlun félagsins fyrir sáraroðið hafi gengið eftir á árinu en COVID-19 hafi haft þau áhrif að ekki fengust leyfi fyrir nýjar vörur félagsins og því hafi ekki komið til neinar tekjur vegna þeirra á rekstrarárinu, eins og vonast hafi verið til.

Fjármagnað út árið 2022

Sölu- og markaðskostnaður Kerecis hækkaði um 43%, stjórnunar- og rekstrarkostnaður stóð í stað og rannsóknar- og þróunarkostnaður lækkaði um 40% að teknu tilliti til styrkja. Á sama tíma hækkaði framlegðarhlutfall félagsins úr 90% í 94%. EBIDTA tap lækkaði um 2/3 eða úr 840 milljónum króna í 280 milljónir króna. Í ársskýrslunni kemur fram að félagið sé fjármagnað út árið 2022 og að sjóðstreymi verði orðið jákvætt árið 2023. Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá síðsumars þá fékk Kerecis þriggja milljarða króna lán til þess að fjármagna frekari vöxt félagsins við sölu á sáraroði í  Bandaríkjunum. 2,2 milljarðar króna komu frá bandaríska bankanum Silicon Valley Bank (SVB) í formi ádráttarláns en um 800 milljónir króna að mestu frá hluthöfum félagsins með breytirétti.

Á aðalfundinum var greint frá því að samkvæmt greiningarfyrirtækinu SmartTRAK Business Intelligence sé Kerecis það fyrirtæki sem sé að vaxa hraðast í Bandaríkjunum á markaði fyrir húðlíki. Jókst markaðshlutdeild Kerecis um 120% á árinu.

„Það er frábært að við höfum náð að meira en tvöfalda tekjur okkar á árinu. Þegar COVID-19 faraldurinn hófst vorum við hrædd um að hann myndi hafa neikvæð áhrif á reksturinn okkar. Raunin er hinsvegar sú að sykursjúkir eru að leita seinna til læknis vegna sára sinna, sem þýðir að sárin eru stærri þegar þeir koma og eru þá frekar meðhöndluð með flóknari vörum eins og sáraroðinu," segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis. „Áhersla okkar er áfram á vöxt en ekki arðsemi og stefnum við að því að halda áfram að vaxa hraðar en önnur fyrirtæki á markaðinum. Ég er afskaplega þakklátur starfsfólki Kerecis fyrir framlag þeirra á þessum erfiðu COVID-19 tímum og er alveg magnað að sjá hversu samhentur hópurinn er, og hversu ört við náðum að bregðast við heimsfaraldrinum og grípa ný tækifæri á markaðinum," bætir hann við.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Oddviti Sjálfstæðisflokksins segir það skjóta skökku við að félag í eigu Reykjavíkurborgar framleiði malbik í samkeppni við einkarekin félög. Eigandi fyrirtækis sem á í samkeppni við malbikunarstöð borgarinnar tekur í sama streng.
  • Endurskoðendaráð telur ekki heimilt að hegna endurskoðendum fyrir siðareglubrot að óbreyttum lögum.
  • Fundur stjórnenda Póstsins með ráðherrum liðkaði fyrir greiðslu 250 milljón króna bráðabirgðaframlags vegna alþjónustu.
  • Rætt er við stofnanda Five Degrees sem hefur tryggt sér 22 milljóna evra fjármögnun.
  • Nýr forstjóri Íslandspósts, Þórhildur Ólöf Helgadóttir, er tekin tali þar sem hún greinir m.a. frá lyklinum til að ná árangri.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem fjallar um Bankasýsluna og sölu Íslandsbanka.
  • Óðinn skrifar um bóluefni, Evrópusambandið og Evrópusambandsdrauma Viðreisnar.