Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Kerecis á í viðræðum um kaup á skráðu bandarísku félagi í heilbrigðisgeiranum með það að markmiði að hraða vexti félagsins samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Ef kaupin ganga eftir verður um milljarða viðskipti að ræða sem verða þau stærstu í sögu Kerecis.

Kerecis hefur jafnframt að undanförnu haft ítarlega til skoðunar að skrá fyrirtækið á markað, þar sem helst hefur verið horft til skráningar í Svíþjóð. Vonir hafa staðið til að fyrirtækið geti verið metið á allt að 700 milljónir dollara við skráningu, um 90 milljarða íslenskra króna, sem væri margfalt hærra en í nýlegum fjármögnunarumferðum.

Þurfa frekara fé til vaxtar

Aðspurður segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri og stofnandi Kerecis, marga kosti vera til skoðunar hvað varðar fjármögnun og leiðir til að undirbyggja frekari vöxt, m.a. kaup á fyrirtækjum eða tækni frá öðrum félögum. Hann geti hins vegar ekki tjáð sig um einstaka hugmyndir eða áætlanir enda hafi engin ákvörðun verið tekin.

Alla jafna séu félög skráð á markað til að auðvelda hluthöfum að selja hluti sína eða bæta aðgengi fyrirtækjanna sjálfra að fjármagni. „Við verðum ekki mikið vör við áhuga hjá hluthöfum Kerecis að losa um hlutina sína. Ég held að sá söluáhugi verði ekki mikill á meðan við vöxum svona hratt. Það er hins vegar ljóst að ef við ætlum að halda þessum hraða vexti áfram þá þurfum við meira rekstrarfé og skráning á félaginu er ein leið sem við höfum verið að skoða til að afla fjár til að halda áfram að vaxa," segir Guðmundur

Nánar er fjallað skráningar- og vaxtaráform Kerecis í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .