Huginn.care er eitt þeirra tíu teyma sem komust áfram í viðskiptahraðalinn StartUp Reykjavík nú á dögunum. Fyrirtækið var stofnað af þeim Björgvini Pétri Sigurjónssyni, Sveini Dal Björnssyni, Sigtryggi Arnþórssyni og Sigurgeir Helgasyni.

Fyrirtækið hefur hannað skýjalausn fyrir stofnanir og fyrirtæki sem eru með búsetuúrræði fyrir fólk með fjölþættan vanda. „Þetta er í raun dagbókar og skýrsluskráningarkerfi þannig að starfsmennirnir geta skráð upplýsingar, til dæmis varðandi lyfjagjöf og ýmis atvik sem upp koma, inn í þetta kerfi um sína skjólstæðinga og við geymum síðan þessar upplýsingar á öruggan máta. Þannig gerir kerfið stofnununum auðveldar fyrir að sækja þessi gögn og safna þeim saman,“ segir Björgvin en hann sér um grafíska hönnun hjá fyrirtækinu.

Hann segir það vera algengt að fyrirtæki séu að skrá mikilvægar upplýsingar á fremur óskipulagðan hátt inn í Exel og Word skjöl og jafnvel eru dæmi um að margir notist aðeins við pappírsblokkir. Lítið sé um gagnasöfnun og eru upplýsingarnar ekki geymdar á öruggan hátt.

Huginn.care hefur nú þegar gert samninga við fyrirtækin Vinakot og Klettabæ en þau vinna með krökkum sem glíma við fjölþættan vanda og þurfa sólarhringsumönnun. Björgvin segir að þeir hafi unnið með Vinakoti alveg frá upphafi og í raun þróað kerfið í samstarfi við þá stofnun.

Kerfið er sérhannað þannig að það henti þessum geira en það er jafnframt opið svo fleiri fyrirtæki geti einnig nýtt sér þennan hugbúnað.

„Þeir sem hafa tekið kerfið okkar í notkun eru mjög ánægðir og þessi lausn er að reynast skjólstæðingum og starfsfólki fyrirtækjanna vel,“ bætir hann við.

Vildu leysa vandann í kerfinu

Björgvin segir að þeir hafi byrjað að þróa hugbúnaðinn árið 2016 þegar þeir störfuðu hjá fyrirtækinu Jökulá. Huginn.care var síðar stofnað stuttu eftir að hugmyndin þeirra var valin áfram í StartUp Reykjavík viðskiptahraðalinn.

Tveir af stofnendum fyrirtækisins, þeir Sigurgeir og Björgvin, hafa unnið hjá stofnunum sem bjóða upp á búsetuúrræði. „Þegar við unnum á þessum stofnunum þá sáum við vandann sem var í kerfinu. Það var afar lítið um skipulega skráningu á atvikum. Það í rauninni gerði alla vinnuna svo óþarflega erfiða og flókna. Við komum auga á vandann og vildum leysa hann,“ segir Björgvin.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .