Andrés Magnússon tók við sem framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu fyrir rúmum áratug, í maí 2008. Það má því segja að hann hafi leitt samtökin í gegnum heila hagsveiflu, þótt aðstæður séu að mörgu leyti aðrar nú en sumarið 2008. Sem betur fer bendir fátt til þess að nýtt hrun sé á næsta leiti en þó eru merki þess að hagkerfið sé tekið að kólna eftir mikla þenslu síðustu ára.

Eitt einkenni efnahagslegra þrenginga er hagræðing í rekstri fyrirtækja, sem stundum felur í sér samruna, en tvær stærstu smásölustamstæður landsins, Hagar og Festi, sameinuðust nýlega hvort sínu olíufélaginu: Hagar Olís, og Festi N1. Það er þó fleira sem kemur til; næststærsta smásölukeðja heimsins, Costco, opnaði útibú hér á landi í maí í fyrra, og selur einmitt hvort tveggja eldsneyti og dagvörur.

Komið til að vera
Viðskiptablaðið greindi frá því nýlega að Costco hafi velt 86 milljónum króna á dag fyrstu 100 dagana frá opnun. Til samanburðar veltu Hagar um 200 milljónum á dag í fyrra, og Festi 109 milljónum. Andrés segir hinn alþjóðlega verslunarrisa kominn til að vera. „Það er alveg hafið yfir vafa og samdóma álit manna að Costco er komið til að vera á íslenskum markaði – og hafa veruleg áhrif. Þeir taka til sín mikil viðskipti og hafa aukið samkeppni á markaðnum, það er ekki nokkur spurning.“

Í kjölfar opnunar Costco lækkuðu margir samkeppnisaðilar verð hjá sér og gerðu ýmislegt til að hagræða í rekstri, en þar á meðal eru áðurnefndir samrunar. Andrés segir það ekki tilviljun. „Það er alveg klárt að breytt samkeppnisstaða á íslenskum smásölumarkaði vegna innkomu Costco hefur ýtt á þessa hagræðingarþróun.“

Seinagangur dýrkeyptur
Þótt samrunarnir hafi aðeins nýlega gengið í gegn er töluvert síðan ákvörðunin um þá var tekin og félögin sóttust eftir samþykki Samkeppniseftirlitsins. Samrunatilkynning Haga og Olís var send eftirlitinu í lok september á síðasta ári og tilkynning Festar og N1 í lok október. Samruni Festar og N1 var loks samþykktur í lok júlí síðastliðins og samruni Haga og Olís nú í september en samþykki beggja samruna var bundið umtalsverðum skilyrðum.

Andrés segir tafir sem þessar geta verið afar afdrifaríkar. „Okkar gagnrýni á þetta snýr fyrst og fremst að því hversu ofboðslega langan tíma þetta tekur. Atvinnulífið er svo háð ákvörðunum stjórnvalda og því hversu hratt þær eru teknar. Það skiptir afar miklu máli fyrir rekstur og afkomu fyrirtækja og hagræðingu innan atvinnulífsins. Allur seinagangur hefur bein áhrif á þessi atriði. Hver mánuður sem líður, áður en sú hagræðing sem stefnt er að nær fram að ganga, er dýr.“ Menn viti hvorki hvort samruninn verði samþykktur né með hvaða skilyrðum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .