Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, segir það eðlilegt að gagnrýna inngrip líkt og þau þegar ríkið kom að Sjóvá. Beinn kostnaður samfélagsins hefði hins vegar verið mun hærri og mikil óvissa skapast ef fyrirtækið hefði farið í þrot. Ítarlegt viðtal við Hermann má finna í nýjasta tölublaði viðskiptablaðsins.

Sú ákvörðun að bjarga Sjóvá hefur verið gagnrýnd harðlega, meðal annars af forstjórum annarra tryggingafélaga, sem telja aðgerðina inngrip á samkeppnismarkaði. Telur þú ákvörðun ríkisins að bjarga Sjóvá rétta?

„Það er eðlilegt að mínu mati að gagnrýna inngrip sem verða með þessum hætti. En gagnrýnin verður að vera ábyrg. Á þessum tíma var Sjóvá með um þriðjungshlut á tryggingamarkaði. Það fólst því kerfislæg áhætta í því ef félagið yrði gjaldþrota. Hugsanlega hefði allt að þriðjungur heimila og fyrirtækja staðið uppi ótryggður ef ekkert hefði verið að gert. Beinn kostnaður samfélagsins hefði því orðið mun hærri og mikil óvissa hefði skapast um tryggingalegt uppgjör. Það er rétt að halda því til haga að aðgerðir ríkisins komu á engan hátt fyrri hluthöfum eða lánardrottnum til góða. Það var fyrst og fremst verið að verja hagsmuni tjónþola.“

Viðtal við Hermann má finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.