Mikil kergja er innan ríkisstjórnarflokkanna vegna fyrirhugaðra laga um gengistryggðu lánin sem Hæstiréttur dæmdi nýlega ólögmæt.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun er nú unnið að því að því með hraði að setja lög um lánin sem tækju mið af nýlegum tilmælum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins (FME), sem fela í stuttu máli í sér að lánin yrðu endurreiknuð aftur í tímann með lægstu óverðtryggðu vöxtum Seðlabankans.

Málið er hins vegar ekki einfalt. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun eru deildar meiningar innan beggja stjórnarflokkanna um slík lög. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að mikil andstaða sé við slík lög innan Samfylkingarinnar og þá sérstaklega hjá Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og formanns Samfylkingarinnar. Sömu heimildir herma þó að þetta sé ekki algilt innan Samfylkingarinnar.

Að sama skapi eru einnig deildar meiningar innan VG. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, vinnur nú samkvæmt heimildum blaðsins hörðum höndum að því að afla málinu pólitísks stuðnings, bæði innan eigin flokks og utan.

Þannig hefur Viðskiptablaðið heimildir fyrir því að leitað hafi verið til forystu stjórnarandstöðunnar, þ.e. Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þess efnis að afla málinu stuðnings. Samkvæmt heimildum blaðsins er lítill vilja meðal stjórnarandstöðunnar til að „skera þá úr snörunni enn einu sinni,“ eins og einn heimildarmaður blaðsins komst að orði. Þegar þetta er skrifað hefur ekki náðst í forystumenn stjórnarandstöðunnar, þá Bjarna Benediktsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson.