*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Innlent 17. mars 2019 18:33

Ketóæðið eykur smjör- og fituáhuga

„Því betur sem hefur gengið í sölu á smjöri því meiri peningum höfum við tapað,“ segir forstjóri MS.

Höskuldur Marselíusarson
Forstjóri MS, Ari Edwald, segir samdrátt í sölu á léttmjólk líkt og í nágrannalöndunum en ólíkt þeim haldi nýmjólkin velli vegna aukins áhuga á fituríkum matvælum.
Haraldur Guðjónsson

Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar ehf. segir aukinn áhugi á fituríkum vörum og smjöri valda ákveðnu ójafnvægi í rekstrinum. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um lögðu eigendur félagsins því til milljarð í lok janúar en frá árinu 2007 þegar félagið var stofnað í núverandi mynd hefur rekstrarafkoman verið neikvæð um 917 milljónir króna.

„Aukinn áhugi á fitu kemur fram í allri okkar vörusölu, til dæmis sjáum við í flestum löndum í kringum okkur að ár frá ári er alltaf einhver samdráttur í drykkjarmjólk, en hér á Íslandi er ekki samdráttur í nýmjólkinni, þessari bláu, heldur er samdráttur í léttmjólk og undanrennu. Það er líka samdráttur í fituminni osti, sem er 17% fita, en vöxtur í 26% og feitari ostum, vegna breytts lífsstíls og mataræðis,“ segir Ari Edwald, og vísar í auknar vinsældir svokallaðs ketó og annars lágkolvetnaríks mataræðis.

„Það er bara meiri eftirspurn eftir fituhlutanum af mjólkurdropanum sem við þurfum öll að jafna okkur á, bæði með vöruþróun og nýjungum próteinmegin. Þeim megin er þó vel að merkja einnig meiri innflutningur. Þetta kemur líka út í aukinni eftirspurn eftir smjöri, en þó að verðlagsnefnd hafi hækkað það sérstaklega í fyrra þá er heildsöluverðið á því ennþá lægra en framleiðslukostnaðurinn. Smjörið er sú vörutegund sem hefur verið í hvað mestum vexti hjá okkur, en það hefur á sama tíma verið þannig að því betur sem hefur gengið í sölu á smjöri því meiri peningum höfum við tapað.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.