Kevin J. Anton, einn af aðstoðarforstjórum Alcoa og yfirmaður markaðsmála segir í samtali við Viðskiptablaðið að ekki sé að búast við að viðlíka álverð og var um mitt sumar í fyrra náist aftur á næstu árum. Eigi að síður verði Fjarðarál álver Alcoa í Reyðarfirði rekið áfram á fullum afköstum.

Hæsta verð sem fengist hefur fyrir hver tonn af áli náðist 7. júlí 2008 þegar verðið fór í um 3.300 dollara á tonnið, en lækkaði síðan ört. Lægst fór verðið í febrúar þegar verðið fór í um 1.250 dollara tonnið og reiknað er með talsverðum eftirspurnarsamdrætti út þetta ár.

„Nú er verðið í kringum 1.850 dollara tonnið og virðist vera að ná jafnvægi á því róli. Það er þó erfitt að ímynda sér að verðið nái þeim hæðum í náinni framtíð sem það komst í sumarið 2008. Einhvern tíma mun verðið þó ná þeim hæðum á ný.”

Býst við miklum vexti í áliðnaði

„Staðan hjá okkur er því í lagi þó nánasta framtíð verði erfið. Við erum þokkalega bjartsýnir með framhaldið þar á eftir og mjög bjartsýnir þegar litið er til lengri framtíðar.

Á árinu 2008 var álmarkaðurinn í heiminum um 37 milljónir tonna. Okkar áætlanir gera ráð fyrir að árið 2018 verði heimsmarkaðurinn um 60 milljónir tonna.

Mikil birgðasöfnun á heimsvísu

Það er alltaf viðvarandi einhverjar álbirgðir í heiminum. Við teljum að sem stendur sé dálítil offramleiðsla miðað við eftirspurn á markaði eða um 500.000 til 1.000.000 tonn. Því miður eru þó um 4,5 til 5 milljónir tonna af áli sem bíða í vöruskemmum víða um heim. Við eðlilegar aðstæður ættu þær birgðir að vera á bilinu 500.000 til 1.000.000 tonn. Þangað til búið er að ná niður þessum birgðum er erfitt að hraða batanum í þessari grein.”

Alcoa í góðri birgðastöðu

Kevin segir að bjarta hliðin sé sú að allir þeirra viðskiptavinir hafi endurnýja sýnar birgðir. Svo ekki eru miklar birgðir í afhendingarkeðju Alcoa.

„Þegar batinn byrjar að einhverju ráði þá munu menn heyra gríðarlegt soghljóð í pípunum," segir Kevin.

Hann segir að hafa beri í huga að markaðurinn fyrir ál sé mjög öflugur. Stöðugt fleiri vörur séu framleiddar úr áli sem er auk þess ál sé snar þáttur í endurvinnsluhugmyndum markaðarins með tilliti til minni útblástur gróðurhúsalofttegunda.

„Við horfum á þetta sem tækifæri þar sem mjög auðvelt er að endurvinna ál. Sem dæmi þá getur áldós sem fer í endurvinnslu verið komin aftur í hillur verslana eftir 60 daga. Orkan sem þarf til að endurvinna ál er aðeins 5% af því sem þarf í að búa til ál í upphafi. Síðan er hægt að endurvinna álið í það óendanlega."

Segir Kevin að þegar sé verið að nota ál í stórum stíl í rafeindaiðnað. Þá leggi álfyrirtækin ríka áherslu á aukna notkun á áli t.d. við framleiðslu á farsímum iPot og fleiri tækjum með það í huga að auðvelda endurvinnslu á slíkum tækjum.

Nánar verður rætt við Kevin í Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn og þá einkum um stöðuna á Íslandi.