*

miðvikudagur, 3. júní 2020
Erlent 20. maí 2020 07:04

Lykilmaður Disney nýr forstjóri TikTok

Kevin Mayer, yfirmaður streymisveitu Disney, tekur við sem forstjóri kínverska samfélagsmiðilsins TikTok.

Ritstjórn
Kevin Mayer, nýr forstjóri Tik Tok og ByteDance.
Aðsend mynd

Kevin Mayer hefur verið ráðinn sem forstjóri kínverska samfélagsmiðilsins TikTok. Mayer mun einnig taka við sem forstjóri móðurfélag þess, ByteDance. Hann starfaði fyrir sem yfirmaður Disney+, streymisþjónustu Disney, sem fór í loftið síðastliðinn nóvember og hefur nú 55 milljónir áskrifenda. New York Times segir frá. 

ByteDance, sem stofnað var árið 2012, er orðið eitt af stærstu tæknifyrirtækjum heims. Auk TikTok hefur fyrirtækið gefið út forritið Douyin, sem er í raun kínverska útgáfa Tiktok, og forritið Toutiao sem er vettvangur fyrir fréttamiðla. Zhang Yiming, 37 ára stofnandi ByteDance, hefur á mjög stuttum tíma orðið einn ríkasti og áhrifaríkasti einstaklingurinn í Kína. 

Brottför Mayer frá Disney var ekki alveg óvænt eftir að Bob Chapek, yfirmaður skemmtigarða fyrirtækisins, var ráðinn nýr forstjóri þess fram yfir Mayer eftir að Bob Iger lét af störfum í febrúar. Mayer sagði í viðtali við NYT að tækifærið að taka við TikTok hafi einfaldlega verið of stórt til að hafna. 

Mayer er þekktur sem klókur samningamaður en hann aðstoðaði Disney að landa kaupsamningum á fyrirtækjum á borð við Pixar, Marvel, Lucasfilm og stóran hluta af 21st Century Fox þegar hann starfaði sem yfirmaður stefnumótunar fyrirtækisins. 

Mayer hóf feril sinn hjá Disney árið 1993 en hóf svo störf hjá Playboy.com árið 2000. Hann sneri aftur til Disney árið 2005 og vann í ýmsum vefsíðum fyrirtækisins líkt og ESPN.com. 

Bandarísk yfirvöld hafa haft miklar efasemdir um kínverskt eignarhald samfélagsmiðilsins TikTok sem hefur verið hlaðið niður 172 milljón sinnum í Bandaríkjunum. Nokkrar stofnanir bandaríska ríkisins, þar af nær allar deildir hersins, hafa bannað starfsfólki að nota forritið. 

Stikkorð: Disney TikTok ByteDance Kevin Mayer