Vodafone bendir á annmarka „keyptrar mælingar,“ sem gerð var á hraða farsímanets, sem að framkvæmd var af Ookla Speedtest og Viðskiptablaðið fjallaði um.

„[..] Vodafone vill koma því á framfæri að Ookla Speedtest bauð Vodafone að mæla og kynna hraða tenginga fyrir að jafnvirði tugi milljóna króna og í framhaldinu árlega áskrift að slíkri mælingu fyrir nokkrar milljónir króna. Keypt mæling á borð við þessa hefur augljóslega ýmsa annmarka eins og þann að auðveldlega má draga í efa að hún sé með öllu óháð enda geta forsendur slíkrar mælingar haft mikil áhrif á niðurstöðuna. Vodafone hefur ekki verið kynnt niðurstöður mælingar Ookla Speedtest sem unnin var fyrir fjarskiptafyrirtækið sem best kom út úr henni né hvaða forsendur voru lagðar til grundvallar mælingunni,“ er haft eftir Guðfinni Sigurvinssyni, samskiptastjóra Vodafone.

Guðfinnur segir þó að Vodafone sé ávallt til í óháða samanburðarúttekt með gagnsæjum og sanngjörnum forsendum og getur orðið neytendum að gangi en því er ekki að heilsa í þessari mælingu, að hans mati. „Ástæðan fyrir því að Vodafone keypti ekki þjónustu Ookla Speedtest var að félagið var ekki tilbúið að greiða svo hátt verð fyrir niðurstöðu sem ekki er hafin yfir vafa,“ segir Guðfinnur jafnframt.

Að lokum tekur Guðfinnur fram: „Það er t.d. mikill galli á mælingu Ookla Speedtest að hún tekur ekki til útbreiðslu háhraðanets í ferkílómetrum lands, svo sem á landsbyggðinni, þar sem Vodafone stendur mjög sterkt að vígi. Þetta þýðir að nóg er fyrir fyrirtæki að koma vel út á skilgreindum svæðum en hafa litla útbreiðslu, til dæmis í dreifbýli, sem skilar sér ekki í gæðum til neytenda.“