Dúfan Armando er ekki venjuleg dúfa eins og þær sem sjást á götum og torgum í borgum heims, heldur bréfdúfa sérstaklega ræktuð til kappflugs og ein skærasta stjarnan í bréfdúfuíþróttinni.Eigandi og þjálfari bréfdúfunnar, Joel Verschoot, seldi hana nýlega á uppboði í Belgíu, fyrir 1,4 milljón Bandaríkjadala, eða sem nemur 165 milljónum íslenskra króna.

Um er að ræða metfjárhæð í bréfdúfuheiminum, en kaupandinn var kínverskur fasteignamógúll. Bréfdúfukappflug hefur orðið vinsælt á síðustu árum í Asíu, og orðið að íþrótt með miklum fjárhæðum undir og töluverðum glamúr.

„Enginn í bréfdúfuheiminum bjóst við að þetta gæti gerst,“ hefur ABC news eftir Nikolaas Gyselbrecht, forstjóri Pigeon Paradise sem sá um uppboðið. „Við vorum að vonast eftir 400 til 500 þúsund dölum.“

Venjuleg bréfdúfa fer hins vegar á um 2.800 dali, eða sem samsvarar 330 þúsund íslenskum krónum. En Armando er á engan hátt venjuleg bréfdúfa, því þó hann sé orðinn 5 ára gamall og á lokametrum kappflugsferilsins, þá býr hann yfir gríðarlegri ratvísi og ótrúlegum vængjastyrk sem gerir hann heppilegan til undaneldis.

„Árin 2017 og 2018 var Armando besta kappflugsbréfdúfan í Belgíu,“ segir eigandinn fyrrverandi, Verschoot. „Árið 2018 var hann bestur í Evrópu og ólympíumeistari.“

Eigandinn fyrrverandi hefur eytt löngum stundum með Armando alveg frá því að hann klaktist úr egginu, en hann á um 300 bréfdúfur og eyðir um 12 tímum á dag með þeim, og þekkir þær allar með nafni. Armando er hins vegar „krúnudjásn allra þessara ára í bréfdúfuíþróttinni,“ að sögn Verschoot.