Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag Warren Buffett, keypti tæplega eins milljarðs dala hlut í tölvuleikjaframleiðandanum Activision Blizzard á fjórða ársfjórðungi 2021, nokkrum vikum áður en stjórn fyrirtækisins samþykkti kauptilboð Microsoft fyrir 75 milljarða dala. Þetta kemur fram í kauphallartilkynningum sem Berkshire Hathaway sendi frá sér í gær, samkvæmt Financial Times .

Hlutabréfaverð Activision hefur hækkað um 20% í ár, töluvert umfram almenna þróun á bandaríska hlutabréfamarkaðnum, sem skýrist aðallega af því að kaupverð Microsoft var nokkuð yfir markaðsgengi tölvuleikjaframleiðandans þegar samningurinn, sem er langstærsta yfirtaka í sögu Microsoft, var kynntur.

Berkshire Hathaway hefur á móti verið að selja hlut sinn í lyfjaframleiðendum að undanförnu. Fjárfestingafélagið seldi allan hlut sinn í ísraelska lyfjafyrirtækinu Teva og seldi 70% af eftirstandandi hlut sínum í AbbVie, keppinauti Alvotech, og Bristol Myers Squibb.