Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í morgun frá máli Guðmundar Jóns Matthíassonar gegn Glitni og Kauphöllinni. Guðmundur og fleiri keypti hlutabréf í Glitni eftir að þáverandi ríkisstjórn tilkynnti að hún ætlaði að fara Glitnisleiðina svokölluðu, leggja bankanum til 600 milljónir evra og eignast 75% hlut í honum. Geir H. Haarde, þá forsætisráðherra, lýsti því yfir í kjölfarið að framtíð bankans væri tryggð.

Opið var fyrir viðskipti með hlutabréf Glitnis á markaði og keypti Guðmundur hlutabréf í bankanum.

Framtíðin reyndist hins vegar í styttri kantinum hjá Glitni en um viku eftir að Glitnisleiðin var farin fór hann í þrot, ríkið tók bankann yfir og eignahlutur hluthafa varð að engu. Þar á meðal Guðmundar sem fór í mál við ríkið vegna málsins.

Guðmundur sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í júní í fyrra saklaust fólk hafa séð kauptækifæri í kaupum á hlutabréfum bankans á sínum tíma.

„Það kaupir þarna í góðri trú hlutabréf í bankanum til þess eins að horfa upp á það að ríkið lætur bankann fara á hausinn sjö dögum síðar," sagði hann og ætlaði gegn ríkinu fyrir þá ákvörðun að leyfa sölu á bréfum í Glitni eftir að ríkisstjórnin lýsti því yfir að hún hafi ætlað að kaupa 75% hlut í honum.

Í málinu sem vísað var frá í morgun setti Guðmundur fram þá kröfu að fá upplýsingar um það hver hafi átt bréfin sem hann keypti í Glitni. Dómurinn taldi Guðmund hins vegar ekki hafa lögvarða hagsmuni af því.

Á myndinni má sjá Davíð Oddsson, þá seðlabankastjóra, greina frá kaupum ríkisins á 75% hlut í Glitni. Lárus Welding, þáverandi bankastjóri situr við hlið pontunnar.

Seðlabankinn tekur yfir Glitni fundur
Seðlabankinn tekur yfir Glitni fundur
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)