*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 23. júlí 2021 13:21

Keypti listaverk fyrir 58 milljónir

Eignir fjárfestingafélags Sigurðar Gísla Pálmasonar námu 7,6 milljörðum króna og er eigið fé þess er rúmir sjö milljarðar.

Jóhann Óli Eiðsson
Sigurður Gísli Pálmason sést hér ásamt Dalia Grybauskaitė, þá forseta Litháen, við opnun Ikea verslunar í Vilnius.
Aðsend mynd

Dexter Fjárfestingar ehf., félag Sigurðar Gísla Pálmasonar, hagnaðist um 1.620 milljónir króna á síðasta rekstrarári en það er um 325 milljónum betri afkoma en árið á undan. Lagt er að til að félagið muni greiða eiganda sínum alls 400 milljónir í arð. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Tekjur félagsins námu 1.691 milljónum á rekstrarárinu en það spannar septemberbyrjun ár hvert til loka ágústmánaðar. Rétt er að geta þess að samanburðarfjárhæðir í rekstrarreikningi geyma aðeins upplýsingar fyrir 1. janúar til 31. ágúst 2019 þar sem rekstrarári félagsins var breytt á fyrra reikningsári. Afkoma af hlutabréfaeign nam 249 milljónum, samanborið við tæplega 26 milljónir rekstrarárið á undan, og hlutdeildarfélög höfðu jákvæð áhrif sem nemur 1.321 milljónum.

Eignir félagsins námu í lok síðasta rekstrarárs 7.655 milljónum króna og jukust um ríflega tvo milljarða króna milli rekstrarára. Eigið fé félagsins var í lok rekstrarársins ríflega sjö milljarðar króna, þar af voru 4.386 milljónir á bundnum hlutdeildarreikningi en óráðstafað eigið fé nam 1.167 milljónum. Hlutafé er tæpar 635 milljónir króna. 

Skuldir félagsins námu 615 milljónum en þær eru að nær öllu leyti ýmist við tengda aðila eða eina eiganda félagsins, Sigurð Gísla Pálmason. Á rekstrarárinu námu arðgreiðslur frá hlutdeildarfélögum tæplega 71 milljón en arður af hlutabréfaeign alls 216 milljónum. Handbært fé í lok rekstrarársins voru rúmar 843 milljónir og greiddi félagið eiganda sínum 50 milljónir í arð á síðastliðnu rekstrarári. 

Meðal eigna félagsins má nefna listaverk sem metin eru á tæpar 158 milljónir króna, ný verk fyrir tæplega 60 milljónir voru keypt á rekstrarárinu, en stærsta eign félagsins er helmingshlutur í Eignarhaldsfélaginu Hofi, rekstraraðila IKEA. Bókfært verð hans er 5.622 milljónir króna. Skattalegt yfirfæranlegt tap að fjárhæð 707 milljónir er niðurfært að fullu vegna óvissu um nýtingu þess.